Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   þri 27. maí 2025 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við gætum fengið sögulegt tímabil í Laugardalnum"
Kvenaboltinn
Þróttur er á toppi Bestu deildar kvenna.
Þróttur er á toppi Bestu deildar kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Kristjánsson er á sínu öðru tímabili með Þrótt.
Ólafur Kristjánsson er á sínu öðru tímabili með Þrótt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur er á toppi Bestu deildar kvenna þegar sjö umferðir eru búnar af deildinni. Það voru líklega ekkert rosalega margir sem voru að búast við því.

Breiðablik tapaði gegn FH í síðustu umferð og Þróttur nýtti tækifærið með því að skella sér á toppinn. Þróttaraliðið, sem er á öðru tímabili hjá Ólafi Kristjánssyni, hefur sótt 19 stig í sjö leikjum og er taplaust.

„Mér finnst þetta líta ofboðslega vel út hjá Þrótti," sagði Magnús Haukur Harðarson í Uppbótartímanum.

„Þær skoruðu fjögur á móti FH og fjögur á móti FHL. Þær eru ekki með eiginlegan framherja, eru með falska níu. Unnur Dóra hefur gert þetta ofboðslega vel. Mér finnst gaman að horfa á Þrótt spila og það er kraftur í öllum leikmönnum."

„Við gætum fengið sögulegt tímabil í Laugardalnum," bætti Maggi við.

Katie Cousins gekk í raðir Þróttar frá Val fyrir tímabilið og hún hefur breytt miklu.

„Þetta er eini leikmaðurinn í deildinni sem stjórnar leikjum frá A til Ö," sagði Maggi en það væri ekki leiðinlegt ef hægt væri að græja ríkisborgararétt fyrir hana svo hún geti spilað fyrir íslenska landsliðið. „Það er ekkert sem hún getur ekki. Hún gerir leikmenn í kringum sig betri því hún er með svo góðan fótboltaheila. Það er bara maí en sjálfstraustið er þannig að þær geta farið í hvaða leik sem er og unnið hann."
Uppbótartíminn - Nýtt lið á toppnum og mikilvægir landsleikir
Athugasemdir
banner