Arsenal gerir tilboð í Gyökeres - Man Utd skipuleggur tilboð í Delap - Spurs býðst Sane
   þri 27. maí 2025 15:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Rúnar um Þorra Stefán: Get ekkert verið að leika mér
Þorri Stefán Þorbjörnsson.
Þorri Stefán Þorbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Israel Garcia.
Israel Garcia.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var eftirsóttur í vetur.
Var eftirsóttur í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðdáendur Bestu deildarinnar voru margir spenntir fyrir því að fylgjast með unglingalandsliðsmanninum Þorra Stefáni Þorbjörnssyni á þessu tímabili. Hann hefur hins vegar ekki spilað mikið með Fram og var ónotaður varamaður í síðasta leik gegn KR.

QPR reyndi að bjóða í hann í vetur og Breiðablik í vor, en Fram hafnaði þeim tilboðum.

Fótbolti.net ræddi um Þorra við þjálfara hans, Rúnar Kristinsson.

Hvernig metur þú stöðuna á honum í dag?

„Það er jafn erfitt fyrir hann og fyrir mig. Við erum í þessu til að reyna vinna fótboltaleiki, ég reyni að stilla upp liðinu hverju sinni með það að markmiði að reyna vinna næsta leik. Israel (Garcia, spænskur varnarmaður) er búinn að standa sig frábærlega fyrir okkur og er búinn að ná að taka þessa stöðu. Þorri er búinn að fá sénsa, komið inn á í nokkrum leikjum og hjálpað okkur að klára leiki. Það getur verið hlutverk sem er ekkert alltaf skemmtilegt, en hann þarf að halda áfram að gera það vel því það skiptir miklu máli fyrir hann og fyrir okkur að menn séu allir að hjálpast að."

„Það kemur sá dagur og sá tími þar sem hann fær sína sénsa aftur, og þá þurfa menn bara að vera tilbúnir,"
segir Rúnar.

„Ég get ekkert verið að leika mér að hlutunum. Ég myndi gjarnan vilja spila á ungum uppöldum Framara alla leiki, leikmanni með þessi gæði sem hann hefur. En ég verð alltaf að reyna velja besta liðið sem mér finnst hverju sinni. Það er ekki háð aldri, litarhátt, kyni eða fyrri störfum - eða hvar þú ert uppalinn. Í mínum huga snýst þetta um að reyna setja saman besta liðið hverju sinni og ég reyni að gera það af heilum hug. Sama hvort það sé Þorri, Gummi Magg, Freyr Sigurðsson eða Tryggvi Snær sem byrjar inn á eða á bekknum, ég verð bara að gera hlutina eins og mér finnst þeir bestir. Ég get ekki verið að hygla mönnum fyrir það að vera eitthvað öðruvísi en hinir. Þetta snýst bara um það, það þarf að vera heilbrigð samkeppni og það verður alltaf á mínum herðum sú ábyrgð að reyna velja besta liðið. Ég sem þjálfari mun alltaf standa og falla með því. Mitt starf byggist á því að reyna búa til gott fótboltalið og reyna spila á bestu leikmönnunum."

„Ef ég ætti að vera hugsa um eitthvað annað þá yrði ég að fá þau skilaboð frá stjórninni um að gera hlutina öðruvísi. Þetta er bara svona og því miður er bara einhver á undan í röðinni eins og staðan er í dag, en þetta er fljótt að breytast, margir leikir í þessu móti og mikið eftir. Við þurfum á breidd að halda, geta hreyft liðið inn á milli. Það verður t.d. mikið álag á liðinu eftir landsleikjahlé, margir leikir á skömmum tíma seinni partinn í júní,"
segir Rúnar.

Þorri Stefán verður 19 ára í ágúst. Hann á að baki 26 unglingalandsleiki og skorað í þeim tvö mörk. Hann hefur komið við sögu í átta af tíu leikjum Fram til þessa á tímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner