Björn Már Ólafsson sérfræðingur um ítalska boltann hefur sett saman úrvalslið tímabilsins úr Serie A. Napoli tryggði sér meistaratitilinn á föstudag eftir spennandi einvígi við Inter en aðeins einn úr meistaraliðinu kemst í lið ársins.
Mile Svilar, Roma
Mile Svilar er best geymda leyndarmál ítölsku deildarinnar en hann hefur sennilega verið besti markvörður deildarinnar eftir að Jose Mourinho gaf honum tækifærið hjá Roma í janúar 2024. Frábær í fótunum, nokkuð öruggur í fyrirgjöfum en það er á milli stanganna sem hann raunverulega nýtur sín. Í fyrsta sinn frá því að Alisson Becker varði búr Rómverjanna er félagið komið með markvörð sem vinnur leiki upp á eigin spýtur. Það er síðan með ólíkindum hvers vegna hann á ekki fleiri landsleiki en raun ber vitni en hann lenti í einhvers konar undarlegri Tom Hanks í The Terminal stöðu á milli Belgíu og Serbíu. Hann gat valið bæði landslið en á endanum var pláss fyrir hann í hvorugu liðinu.
Denzel Dumfries, Internazionale
Í öðrum flokki spilaði ég einu sinni vinstri bakvörð á móti Kristni Inga Halldórssyni. Þess vegna veit ég nákvæmlega hvað ég er að tala um þegar ég segi að Denzel Dumfries er sú hraðlest sem fæstir vilja mæta í deildinni. Hraðinn er slíkur að það eina sem þú sérð eru grastorfurnar sem spýtast upp í andlitið á þér þegar 18 mm stáltakkarnir höggvast ofan í blautt grasið eins og vígtennur á eiturslöngu og það eina sem þú getur gert er að halda eltingaleiknum áfram og vona að hann klúðri færinu. Eða lyfta bara alltaf upp hendinni og biðja um rangstöðu jafnvel þó þú vitir að hann var réttstæður eins og ég reyndi að gera gegn Kristni Inga á æfingasvæði Fram í leiknum eftirminnilega. Sjö mörk og tvær stoðsendingar hjá Hollendingnum á tímabilinu, þú rífur það ekki upp af götunni.
Alessandro Bastoni, Internazionale
Lykilmaðurinn í sennilega bestu varnarlínu heims. Þessi örvfætti miðvörður er að klukka enn eitt tímabilið sem besti miðvörður deildarinnar. Ekki aðeins er hann öryggið uppmálað í öftustu línu heldur er hann líka með frábæran vinstrifót sem er öflugt vopn í sóknarleik Inter. Það er heldur ekki oft sem maður sér 190 cm miðvörð leysa stöðu vinstri vængbakvarðar eins og Bastoni þurfti að gera á köflum á tímabilinu og það gerði hann óaðfinnanlega.
Evan Ndicka, Roma
Einn vinur minn hafði orð á því að varnarleikur Evan Ndicka er eins og trúboðastellingin: fumlaus, öruggur og gagnlegur en engin flugeldasýning. Eins og Antonio Rudiger án allra fíflaláta. Ndicka hefur spilað hverja einustu mínútu af deildarleikjum Roma og myndar frábært miðvarðarpar með makker sínum Gianluca Mancini sem er algjör andstaða. Á meðan Mancini rífst við dómara jafnvel þegar dómar falla með honum þá er Ndicka næstum aldrei í nærmynd því hann lætur þriðja liðið alveg eiga sig. Frábær í loftinu og með langar lappir sem hann notar til að krækja í boltann. Síðan er hann örfættur sem auðveldar liðinu allt uppspil.
Juan Miranda, Bologna
Miranda er nafn sem einhverjir muna eftir hjá Barcelona þar sem hann ólst upp. Eftir stutt flakk um meginland Evrópu var hann sóttur til Bologna fyrir tímabilið til að leysa af Riccardo Calafiori og hann hefur staðið sig með prýði. Hann er nútímalegur bakvörður, tæknilega góður og mjög mikilvægur í öllu uppspili Bologna þar sem hann leysir oft inn á miðjuna. Varnarlega hefur hann síðan staðið sig betur en búist var við.
Tijani Reijnders, AC Milan
Eini miðjumaðurinn með lífsmarki hjá AC Milan á tímabilinu er Tijani Reijnders en sá hefur líka verið sprellifandi. Hann er með stórhættulegan hægrifót enda má heyra saumnál detta á San Siro í hvert sinn sem hann mundar fallbyssuna. Hann kann vel við sig í öllum stöðunum á miðjunni, er öruggur á boltann og finnur alltaf lausu svæðin. Einn vinsæll fótboltabloggari á Ítalíu vill meina að leikstíll Þóris Jóhanns Helgasonar sé af svipuðu sauðahúsi og að hann gæti verið flott varaskeifa fyrir Reijnders á næsta tímabili. Athyglisverð greining að minnsta kosti.
Scott McTominay, Napoli
McTerminator, MacGyver, dósaopnarinn, McFratm‘ (ísl. McVinurMinn). Kært barn hefur mörg nöfn segir danskt máltæki og það á við um nýjustu hetju Napoli. Þessi skoski miðjumaður heldur sigurgöngu sinni um Evrópu áfram og var lykilmaður í Napoli sem vann ítölsku deildina í ár eftir að hafa verið lykilmaður í Manchester United liðinu sem vann FA bikarinn í fyrra. Antonio Conte hefur spilað honum í mjög sóknarsinnuðu hlutverki þar sem hann er í því hlutverki að mæta inn í teiginn og klára færin á meðan glímukóngurinn Lukaku sér um að halda varnarmönnunum uppteknum. Hlægilega einföld uppskrift en árangursrík.
Manuel Locatelli, Juventus
Það kom mörgum á óvart þegar Luciano Spalletti landsliðsþjálfari Ítalíu valdi Locatelli ekki í landsliðshópinn á EM 2024 og vildi meina að hann væri ekki nægilega góður. Locatelli tók því greinilega mjög persónulega því hann hefur verið besti leikmaður Juventus á tímabilinu á meðan stóru nöfnin á miðjunni hafa floppað. Koopmeiners sem var sóttur fyrir tímabilið á háa upphæð hefur ekki náð sér á strik og Douglas Luiz sem kom frá Aston Villa virðist ekki ráða við hraðann í ítölsku deildinni. Locatelli er öruggur varnarlega og skilar líka mikilvægum mörkum fyrir hina svarthvítu.
Riccardo Orsolini, Bologna
Enn einn leikmaðurinn sem margir voru búnir að afskrifa en sem hefur nú loksins komið ferli sínum á réttan kjöl. Kraftmikill kantmaður sem endar sem markahæsti leikmaður Bologna á tímabilinu. Mörkin hans eru í öllum regnbogans litum, bæði er hann mættur á fjærstöngina og svo býr hann líka yfir frábærum vinstri fæti sem markmenn óttast. Nú á dögunum var hann á ný valinn í ítalska landsliðið og það mun ekki koma neinum á óvart ef hann fær mínútur í næsta landsliðsglugga.
Mateo Retegui, Atalanta
Fáir spáðu því fyrir tímabilið að Mateo Retegui myndi standa eftir sem markakóngur deildarinnar að loknum 38 umferðum. Atalanta byrjaði tímabilið með Gianluca Scamacca sem sinn aðalstriker en hann meiddist alvarlega í upphafi tímabils og þá varð það neyðarlausn að sækja þennan argentínska Ítala til Bergamo þar sem hann hefur rækilega slegið í gegn. Hans helstu kostir koma í ljós um leið og boltinn berst inn á teiginn enda er hann ekkert sérstaklega fljótur, sterkur eða stór. Hann er fyrst og fremst markaskorari og gríðarlega árangursríkur sem slíkur. Hann er með þennan snögga pendúl á hægri fætinum líkt og Sergio Aguero og er því oft búinn að skjóta á markið áður en markvörðurinn nær að staðsetja sig rétt. Fullkominn í sóknarsinnað lið Atalanta og það verður erfitt fyrir Scamacca að endurheimta sætið sitt á næsta tímabili.
Moise Kean, Fiorentina
Loksins, loksins, loksins. Eilífa vandræðabarnið Moise Kean virðist nú loksins vera að springa út eftir að hafa þótt efnilegur leikmaður í 10 ár. Eftir misheppnaðar tilraunir til að ná sér á strik hjá Everton og PSG var það að lokum Raffaele Palladino þjálfari Fiorentina sem tókst að ná því best út úr Kean. Palladino var sjálfur hæfileikaríkur framherji á sínum tíma en sóaði hæfileikunum með leti og vott af hroka. Hann hefur því kannski getað miðlað eigin reynslu til Kean og gert úr honum einn besta framherja Evrópu þegar hann er á deginum sínum. Gríðarlega kraftmikill og góður slúttari sem hefur líka sýnt sínar bestu hliðar í ítalska landsliðinu, meðal annars með frábærri tvennu gegn Þjóðverjum fyrr á árinu.

Stöðutaflan
Ítalía
Serie A - karlar

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Napoli | 38 | 24 | 10 | 4 | 59 | 27 | +32 | 82 |
2 | Inter | 38 | 24 | 9 | 5 | 79 | 35 | +44 | 81 |
3 | Atalanta | 38 | 22 | 8 | 8 | 78 | 37 | +41 | 74 |
4 | Juventus | 38 | 18 | 16 | 4 | 58 | 35 | +23 | 70 |
5 | Roma | 38 | 20 | 9 | 9 | 56 | 35 | +21 | 69 |
6 | Fiorentina | 38 | 19 | 8 | 11 | 60 | 41 | +19 | 65 |
7 | Lazio | 38 | 18 | 11 | 9 | 61 | 49 | +12 | 65 |
8 | Milan | 38 | 18 | 9 | 11 | 61 | 43 | +18 | 63 |
9 | Bologna | 38 | 16 | 14 | 8 | 57 | 47 | +10 | 62 |
10 | Como | 38 | 13 | 10 | 15 | 49 | 52 | -3 | 49 |
11 | Torino | 38 | 10 | 14 | 14 | 39 | 45 | -6 | 44 |
12 | Udinese | 38 | 12 | 8 | 18 | 41 | 56 | -15 | 44 |
13 | Genoa | 38 | 10 | 13 | 15 | 37 | 49 | -12 | 43 |
14 | Verona | 38 | 10 | 7 | 21 | 34 | 66 | -32 | 37 |
15 | Parma | 38 | 7 | 15 | 16 | 44 | 58 | -14 | 36 |
16 | Cagliari | 38 | 9 | 9 | 20 | 40 | 56 | -16 | 36 |
17 | Lecce | 38 | 8 | 10 | 20 | 27 | 58 | -31 | 34 |
18 | Empoli | 38 | 6 | 13 | 19 | 33 | 59 | -26 | 31 |
19 | Venezia | 38 | 5 | 14 | 19 | 32 | 56 | -24 | 29 |
20 | Monza | 38 | 3 | 9 | 26 | 28 | 69 | -41 | 18 |
Athugasemdir