Arne Slot, stjóri Liverpool, er stjóri ársins hjá LMA, samtökum knattspyrnustjóra á Englandi, í fyrsta sinn.
Mikil pressa var á Slot fyrir þetta tímabil. Hann tók við liðinu af Jürgen Klopp sem hafði náð ótrúlegum árangri á níu árum sínum í Liverpool-borg.
Ofan á það gerði hann fáar breytingar á leikmannahópnum og sótti aðeins einn leikmann, Federico Chiesa, sem spilaði lítið sem ekkert í deildinni.
Hann sýndi það að hann var meira en tilbúinn í ensku úrvalsdeildina og vann deildina í fyrstu tilraun ásamt því að koma liðinu í úrslit deildabikarsins.
Slot hefur hlotið viðurkenningu fyrir störf sín á tímabilinu en LMA, samtök knattspyrnustjóra á Englandi, hefur valið hann sem stjóra ársins og besta stjóra úrvalsdeildarinnar.
Stjórinn var ekki viðstaddur til að taka við verðlaununum en hann vildi sýna samstöðu eftir hræðilegan atburð gærdagsins. Fjöldi fólks særðist eftir að 53 ára gamall karlmaður keyrði í gegnum mannfjöldann í skrúðgöngu Englandsmeistaranna en ekkert dauðsfall eftir verið tilkynnt til þessa.
Daniel Farke, stjóri Leeds, er þjálfari ársins í B-deildinni eftir að hann vann deildina og kom liðinu aftur upp í úrvalsdeildina og þá var Chris Davies, stjóri Willums Þórs Willumssonar og Alfonsar Sampsted, stjóri ársins í C-deildinni fyrir að setja stigamet er Birmingham vann deildina.
Sonia Bompastor, þjálfari kvennaliðs Chelsea, var valin best í WSL-deildinni fyrir að vinna titilinn á fyrsta tímabili sínu þar.
Athugasemdir