Fjórir risar bítast um Wirtz - Neymar aftur til Barcelona? - Howe og Potter orðaðir við stjórastarf Manchester United
   þri 27. ágúst 2024 13:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Trent hugsi eftir skiptinguna - „Fyrir mér besti hægri bakvörður í heimi"
Trent Alexander-Arnold.
Trent Alexander-Arnold.
Mynd: Getty Images
Frábær leikmaður.
Frábær leikmaður.
Mynd: EPA
„Ég skil hann bara vel. Af hverju er verið að taka hann út af?" sagði Orri Fannar Þórisson, þjálfari KV, þegar rætt var um Trent Alexander-Arnold í Enski boltinn hlaðvarpinu í gærkvöldi.

Alexander-Arnold hefur verið tekinn af velli eftir um 70 mínútur í báðum leikjum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni til þessa.

Þegar hann var tekinn út af í síðasta leik gegn Brentford þá virtist hann verulega pirraður.

„Það eru 20 mínútur eftir. Hann var mjög þungur. Trent á eitt ár eftir af samningi og hann langar kannski ekkert að skrifa undir ef hann veit ekki hvort að hann spili 90 mínútur. Þetta er næstbesti leikmaðurinn í liðinu," sagði Orri jafnframt.

Conor Bradley kom sterkur inn hjá Liverpool á síðasta tímabili og er einnig öflugur kostur í hægri bakvarðarstöðuna.

„Bradley er bara fínn en Trent er fyrir mér besti hægri bakvörður í heimi ásamt Dani Carvajal. Hann er einn besti leikmaður liðsins. Til hvers ertu að taka hann út af? Bradley getur fengið leiki í deildabikarnum og bikarnum. Það eru leikir fyrir hann. Heldurðu að Bradley sé að fara að mæta á skrifstofuna hjá Slot og spyrja 'hvað varstu að pæla að spila mér ekki?'," sagði Jóhann Páll Ástvaldsson í þættinum.

„Maður sá að Trent var mjög hugsi," sagði Orri en mögulega fá þessar skiptingar hann til að hugsa sig um mikilvægi sitt í liðinu.

„Mögulega er Slot þá að hugsa um að vernda sig með Bradley. Slot sagði í viðtali að hann hefði spilað mikið á EM í byrjun en hann var eiginlega bara að hvíla sig á EM. Þetta er bara skrítið," sagði Jóhann Páll og bætti við: „Trent er ekkert eðlilega góður leikmaður."

Alexander-Arnold á bara eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool og er ákveðin óvissa með framtíð hans, en þeir ræddu um það í þættinum að Slot væri ekki að sannfæra hann mikið með því að taka hann út af í þessum leikjum, en það getur enn margt breyst á næsta árinu. Bakvörðurinn öflugi hefur verið orðaður við Real Madrid og verður athyglisvert að sjá hvað gerist.

Alexander-Arnold er uppalinn hjá Liverpool og hefur spilað meira en 300 leiki fyrir félagið.


Enski boltinn - Ten Hag tíminn, Noni í stuði og Guardiolabolti í Liverpool
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner