Marcus Rashford framherji Manchester United er að eiga sitt besta tímabil í markaskorun í treyju Man Utd en Erik ten Hag stjóri liðsins segir að hann geti gert mun betur.
Rashford hefur skorað 30 mörk í 54 leikjum á þessari leiktíð, 17 mörk í 34 leikjum í deildinni.
„Hann getur bætt sig helling. Ég er sannfærður um að hann geti skorað miklu meira. Hann hefur ekki skorað mikið í síðustu tíu leikjum, aðeins 2-3 mörk held ég svo hann getur svo sannarlega bætt sig," sagði Ten Hag.
„Ég er ánægður með það sem hann hefur gert frá síðasta tímabili og þar til núna. Við studdum við bakið á honum eins og við gátum, hvernig við spilum og hugarfarið hans. Við verðum að leggja meira á hann, ég held að hann geti skorað 40 mörk á einu tímabili. Það er næsta skref."