
Tyrkland hefur unnið síðustu þrjá heimaleiki sína í undankeppni HM og hefur ekki tapað leik á heimavelli í riðlinum. Íslendingar vonast til þess að það breytist eftir rúma viku.
„Þetta er eitt erfiðasta verkefni sem við förum í," segir Helgi Kolviðsson aðstoðarlandsliðsþjálfari um komandi viðureign.
Hann segir erfiðara að greina tyrkneska liðið en flesta aðra andstæðinga.
„Þeir eru með ótrúlega mikið af góðum leikmönnum um alla Evrópu. Þeir hafa kallað inn rosalega marga í þessari undankeppni og maður öfundar ekki Frey (Alexandersson) sem hefur verið á ferðalagi og að fylgjast með öllum þessum leikmönnum. Það er svo margt sem getur breyst og ekki auðvelt að segja til um hver spilar."
Rúmeninn Mircea Lucescu tók við þjálfun tyrkneska liðsins í sumar en hann er 72 ára reynslubolti.
„Lykillinn hjá Tyrkjum er agi og skipulag. Lucescu er með mikla reynslu og hefur unnið marga titla. Hann var þjálfari í fjögur ár í Tyrklandi og vita hvernig þeir eru. Þetta er gæi sem hefur mikla virðingu og er mjög skipulagður," segir Helgi.
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir