
Keflvíkingar eru á leið á Laugardalsvöll í úrslit umspils Lengjudeildarinnar annað árið í röð eftir 3-0 sigur á grönnum sínum í Njarðvík á útivelli í dag. Keflvíkingar voru með bakið upp við vegg en sneru taflinu sér í vil í leiknum og eygja enn sæti í Bestu deildinni að ári. Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari þeirra var til viðtals eftir leik og var spurður. Hvar lá munurinn á liðunum í dag?
Lestu um leikinn: Njarðvík 0 - 3 Keflavík
„Það var engin svakalegur munur á þessu í dag. Það var bara hálfleikur í þessu eftir leikinn í Keflavík og við vorum bara staðráðnir í að koma hingað og ná inn einu marki til að gera þetta að leik.“
„Það svolítið mikil spenna í leiknum í fyrri hálfleik og lítið að gerast og við náum ekki að ógna markinu. En við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að fara hérna út og skapa einhver færi og það kom heldur betur mark úr efstu hillu frá honum Mudri (Marin Mudrazija) og svo fylgja tvö önnur góð mörk.“
Framundan hjá Keflavík er líkt og fyrr segir þar sem mótherjinn verður HK. Staða sem lið Keflavíkur þekkir en liðið beið lægri hlut fyrir Aftureldingu fyrir ári síðan í úrslitaleiknum og sat eftir með sárt ennið. Mun sú reynsla hjálpa þeim?
„Ég held að það geti hjálpað okkur alveg helling að við vorum í þessum leik í fyrra. Þar töpum við en vorum svo nálægt þessu að fara alla leið og menn muna eftir þeirri tilfinningu.“
Sagði Haraldur en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir