Watkins orðaður við United - Bayern sýnir Díaz áhuga - Arsenal hefur rætt við Eze
   fös 28. september 2018 12:00
Magnús Már Einarsson
Best og efnilegust: Valdi Breiðablik frekar en Ítalíu
Kvenaboltinn
Alexandra Jóhannsdóttir.
Alexandra Jóhannsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður Breiðabliks, er bæði efnilegasti og besti leikmaðurinn í Pepsi-deild kvenna árið 2018 að mati Fótbolta.net. Alexandra segir að þessar tilnefningar komi á óvart.

„Já þær gera það. Þetta er aðeins annað árið mitt sem ég spila í Pepsi deildinni og þegar ég skrifaði undir hjá Breiðablik var mitt fyrsta markmið að fá sæti í byrjunarliðinu. Í byrjun tímabils hefði ég aldrei trúað því að ég myndi fá þessar tilnefningar, og hvað þá báðar," sagði Alexandra við Fótbolta.net í adg.

Fann fljótlega að þetta yrði gott sumar
Alexandra vann bæði deild og bikar á sínu fyrsta tímabili hjá Breiðabliki en hún kom til félagsins frá Haukum í fyrravetur.

„Eftir erfitt tímabil með Haukum árið áður var mig farið að langa í sigra inni á vellinum. Ég fann það eftir skamman tíma hjá Breiðablik að þetta myndi verða gott sumar. Hópurinn náði strax vel saman og þetta small bara hjá okkur."

„Við náðum að halda stöðugleika sem krefst mikillar vinnu alveg frá byrjun. Að vinna Mjólkurbikarinn var geggjuð tilfinning en ég verð að segja að Íslandsmeistaratitillinn var ennþá sætari tilfinning og toppaði sumarið."


Sara alltaf verið fyrirmyndin
Alexandra átti frábæra leiki á miðjunni hjá Blikum en hver er lykillinn að frammistöðunni?

„Stelpurnar í kringum mig hjálpa mér að eiga góðan leik. Ég er farin að þekkja hvernig þær spila og það hjalpar mer. Fyrir alla leiki held ég mér við sömu rútínu og finnst mer það hjálpa til þess að halda stöðugleika."

Alexandra var á dögunum valin í íslenska landsliðið í fyrsta skipti. Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, þjálfaði Alexöndru í yngri flokkunum hjá Haukum og hefur alltaf verið fyrirmynd hennar.

„Alveg síðan ég byrjaði í fótboltanum. Að hún hafi verið í Haukum eins og ég gerði hana sérstaka fyrir mér. Hún byrjaði snemma að vekja athygli og ég hef fylgst með henni alveg síðan hún fór frá Haukum. Hún gerir alla hluti einfalt á vellinum og er mjög yfirveguð á boltanum og það er eins og ég vil spila."

Ætlar ekki út strax
Alexandra hefur vakið mikla athygli í Pepsi-deildinni í sumar en hefur hún heyrt af áhuga frá erlendum félög? „Nei, eða allavega ekki svo ég viti um. Áður en ég skrifaði undir hjá Breiðablik hafði ítalskt félag áhuga á mér en ég tók þá ákvörðun að fara frekar í Breiðablik því ég taldi það rétta í stöðunni, ég sé alls ekki eftir því núna," sagði Alexandra sem ætlar ekki að drífa sig út í atvinnumennsku.

„Ég fer ekki út í vetur. Ég mun spila með Breiðablik næsta tímabil. Þetta verður skemmtilegt tímabil þar sem við ætlum klárlega að reyna að verja titlana okkar. Það verður líka gaman að fá að taka þátt í Meistaradeildinni. Það mun gefa mér mikla reynslu sem á eftir að nýtast mér seinna," sagði Alexandra að lokum.

Sjá einnig:
Besti þjálfarinn: Hef ekki áhuga á landsliðinu eins og staðan er
Besti dómarinn: Átti ekki von á að þetta væri svona gaman
Úrvalslið Pepsi-deildar kvenna 2018
Athugasemdir
banner