mið 28. september 2022 16:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fer Grétar frá Tottenham strax? - Orðaður við PSV
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grétar Rafn Steinsson kemur til greina í stórt starf á bak við tjöldin hjá PSV Eindhoven í Hollandi.

Frá þessu er greint hjá Voetbal International í Hollandi í dag.

Grétar var í sumar ráðinn í stórt starf hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Tottenham. Því er mjög athyglisvert að það sé verið að orða hann við annað starf núna.

Grétar er fyrrum landsliðsmaður Íslands sem lék lengi sem bakvörður erlendis; í Sviss, Hollandi Tyrklandi og á Englandi. Að loknum leikmannsferlinum lauk Grétar Rafn meistaranámi í íþróttastjórnun við Johann Cruyff stofnunina í Barcelona og er hann einnig útskrifaður sem Level 5 Technical Director frá enska fótboltasambandinu.

Grétar hefur starfað á Englandi síðustu ár, fyrst sem yfirmaður fótboltamála hjá Fleetwood Town og svo var hann í stóru hlutverki á bak við tjöldin hjá Everton í leikmannamálum félagsins.

Hann var í tímabundnu ráðgjafastarfi hjá KSÍ fyrr á þessu ári þar sem hann vann að því að efla starf sambandsins. Hann hætti þar í sumar og færði sig yfir til Tottenham þar sem hann starfar sem hægri hönd Fabio Paratici, yfirmanns fótboltamála hjá félaginu. Hann vinnur náið með Ítalanum á bak við tjöldin hjá Tottenham.

Núna er hins vegar sagt að PSV vilji ráða Grétar til starfa. Marcel Brands, góðvinur Grétars, er yfirmaður fótboltamála hjá PSV og vill fá Íslendinginn með sér í lið. Þeir unnu saman hjá Everton og eru góðir félagar.

Hvort Grétar sé tilbúinn að hoppa frá Tottenham til PSV er stóra spurningin í þessu.

Sjá einnig:
Grétar fyrirlítur kjaftæði, talar hreint út og er með handaband úr stáli


Athugasemdir
banner
banner
banner