
Dagný Brynjarsdóttir kom inn af bekknum og braut ísinn er West Ham United tryggði sig áfram í næstu umferð enska bikarsins.
Hamrarnir heimsóttu Wolves í 32-liða úrslitunum og var staðan markalaus allt þar til Dagný skoraði á 71. mínútu, aðeins sex mínútum eftir innkomuna af bekknum.
Wolves leikur í ensku C-deildinni og er þar á toppinum. Dagný byrjaði á bekknum til að fá hvíld en hún er fyrirliði og lykilmaður í liði West Ham.
Wolves 0 - 2 West Ham
0-1 Dagný Brynjarsdóttir ('71)
0-2 K. Johnson ('76, sjálfsmark)
Það fóru fleiri leikir fram þar sem María Þórisdóttir var ónotaður varamaður í naumum sigri gegn Sunderland, sem leikur í Championship deildinni.
Nikita Parris sá um markaskorunina þar sem hún gerði bæði mörk Rauðu djöflanna.
Arsenal setti þá níu mörk gegn Leeds og Manchester City skoraði sjö gegn Sheffield United á meðan Tottenham rúllaði yfir London City Lionesses, sem er topplið Championship deildarinnar.
Chelsea og Liverpool áttust við í stórleik dagsins og úr varð hörkuslagur þar sem ástralska goðsögnin Sam Kerr gerði útslagið með frábærri þrennu.
Lokatölur urðu 3-2 en Chelsea er í titilbaráttu ensku ofurdeildarinnar á meðan Liverpool er í fallbaráttunni, með 8 stig eftir 10 umferðir.
Sunderland 1 - 2 Man Utd
Arsenal 9 - 0 Leeds
Tottenham 5 - 0 London City
Chelsea 3 - 2 Liverpool