fim 29. september 2022 10:37
Hafliði Breiðfjörð
Prag
Pétur ósáttur við KSÍ: Verður sjálfsafgreiðsla eins og í Krónunni?
Pétur gerði Val að bikarmeisturum fyrr í sumar. Nú er bikarúrslitaleikur karla settur til höfuðs lokaumferðar Bestu-deildar kvenna.
Pétur gerði Val að bikarmeisturum fyrr í sumar. Nú er bikarúrslitaleikur karla settur til höfuðs lokaumferðar Bestu-deildar kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur á hliðarlínunni í Prag í gær.
Pétur á hliðarlínunni í Prag í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda formaður KSÍ  gekk inn á völlinn fyrir bikarúrslitaleik kvenna í ágúst. Hún mun ekki geta verið á báðum stöðum á laugardaginn.
Vanda formaður KSÍ gekk inn á völlinn fyrir bikarúrslitaleik kvenna í ágúst. Hún mun ekki geta verið á báðum stöðum á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bikarmeistarar Vals í ágúst.
Bikarmeistarar Vals í ágúst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Mér finnst þetta mikil vanvirðing við kvennafótboltann og það sem stelpurnar leggja á sig til að vera góðar fótboltakonur og annað fólk í kringum félögin," sagði Pétur Pétursson þjálfari Vals við Fótbolta.net í Prag í morgun.


Valur varð Íslandsmeistari með sigri á Aftureldingu í Mosfellsbæ síðastliðinn laugardag og fær meistaraskjöldinn afhentan eftir lokaleik mótsins næstkomandi laugardag.

Lokaumferðin í Bestu-deild kvenna hefst klukkan 14:00 en klukkan 16:00 verður leikinn bikarúrslitaleikur karla milli FH og Víkings á Laugardalsvelli.

„Það er verið að tala um að bæta umgjörð og umfjöllun og allt um Bestu-deild kvenna sem ég efast ekki um að hafi verið gert að einhverju leyti, en hverjum í ósköpunum hjá KSÍ datt í hug að setja bikarúslitaleik karla á klukkan fjögur á sama tíma og Besta-deild kvenna er að spila lokaumferð?" spurði Pétur þegar hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Inni í því er bikarráðstefna þar sem fólk situr frá 10:00 á morgnana. Þar er fólk sem hefði örugglega áhuga á að fara á einhvern lokaleik í Bestu-deild kvenna þar sem er verið að berjast um Meistaradeildarsæti."

Ljóst er að svona skörun mun hafa áhrif á hvernig fjölmiðlar ná að senda mannskap á báða viðburði og Pétur áttar sig á að það gæti komið niður á Bestu-deild kvenna.

„Það er mjög líklegt að öll umfjöllun um Bestu-deild kvenna þennan dag verði nánast engin," sagði Pétur. „Að sjálfsögðu mun öll umfjöllun snúast um úrslitaleik karla þar sem FH og Víkingur eru að spila," hélt hann áfram.

„Mér finnst þetta setja stelpurnar rosalega mikið niður. Þær eru búnar að æfa eins og skepnur og gera það vel, oftast á lágum launum. Þær fá ekki einu sinni þá virðingu frá Knattspyrnusambandinu að það sé einhver tími fyrir þær, hvort sem það er í sambandi við umfjöllun eða annað."

Valur mætti Slavia Prag í Meistaradeild Evrópu í gær en leikið var ytra og liðið mun ekki koma heim fyrr en næstu nótt. Leikurinn á laugardaginn mun hefjast 14:00 og verður þriðji leikur liðsins á einni viku.

„Það var óskað eftir því við Val að færa leikinn til 13:00. Ég hef verið að biðja um meiri hvíld fyrir liðið og við náum ekki einu sinni æfingu, og hvað þá að fara að stytta tímann milli leikja," sagði Pétur.

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ gekk inn á völlinn fyrir úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna í lok ágúst ásamt styrktaraðilum og fulltrúum félganna og heilsaði liðunum. Nú er ljóst að hún gæti aldrei náð því og afhent skjöldinn enda fara báðar athafnir fram á sömu mínútunni.

„Ég spyr mig hvort vandamálið sé að það komist enginn frá KSÍ til að afhenda okkur Íslandsmeistaratitilinn? Verður þetta eins og í Krónunni, gert með sjálfsafgreiðslu og fyrirliðinn sæki skjöldinn á borð því allir aðrir verða í Laugardalnum?"

Pétur hefði viljað fá annan leiktíma á bikarúrslitaleiknum en samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net fékk RÚV sem sjónvarpsrétthafi að velja leiktímann á honum.

„Það eru flóðljós í Laugardalnum og hefði verið hægt að hafa þann leik klukkan 18:00 eða 20:00 um kvöldið. Síðast þegar ég vissi má fólk vera úti eftir sex á kvöldinn og gæti því farið á leikinn," segir Pétur.

„Ég heyrði í viðtali við formann KSÍ að hún ætli sér að efla kvennaknattspyrnu en mér finnst þetta algjör vanvirðing," sagði Pétur.

„Fréttamenn munu þurfa að fara í Laugardal og fara því áður en þessir leikir eru búnir," sagði Pétur.

„Mér finnst ekkert lið í Bestu-deild kvenna eiga þetta skilið. Hvort það séu liðin sem falla, þau sem eru í baráttu eða að klára deildina með sóma. Ég spyr sjálfan mig, var enginn í vinnunni hjá KSÍ sem hugsaði 'nei, þetta er ekki góð hugmynd'. Var enginn sem pældi í því?"

Uppfært 14:26: Fótbolti.net fékk ábendingu um það eftir birtingu viðtalsins að ekki fari fram bikarúrslitaráðstefna á laugardaginn.


Athugasemdir
banner
banner
banner