Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 30. janúar 2023 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
PSG vill kaupa Malcom frá Zenit
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Brasilíski kantmaðurinn Malcom hreif fótboltaunnendur sem leikmaður Bordeaux í Frakklandi og var keyptur til Barcelona fyrir rúmlega 40 milljónir evra sumarið 2018. 


Hann stóðst ekki væntingarnar sem til hans voru gerðar hjá Barca og var seldur til Zenit einu ári síðar. Hann er algjör lykilmaður hjá Zenit í dag og hefur vakið verðskuldaða athygli með frammistöðu sinni þar. 

Paris Saint-Germain er meðal áhugasamra félaga og greina franskir fjölmiðlar frá því að franska stórveldið hafi mikinn áhuga á að kaupa Malcom.

Malcom skoraði 4 mörk í 24 leikjum hjá Barca sem tókst að selja hann aftur fyrir sömu upphæð og félagið greiddi fyrir hann ári fyrr.

Það tók Brassann smá tíma að fóta sig í rússneska boltanum en hann er heldur betur kominn á fullt flug núna.

Á síðustu leiktíð kom hann að 17 mörkum í 35 leikjum en á yfirstandandi leiktíð er hann búinn að taka beinan þátt í 22 mörkum í 23 leikjum.

Hjá PSG myndi hann berjast við nokkra af bestu leikmönnum heims um byrjunarliðssæti. Malcom er hægri kantmaður að upplagi en getur einnig spilað fyrir aftan fremsta sóknarmann eða á vinstri kanti. Ekki ósvipað Kylian Mbappe, Neymar og Lionel Messi.

Malcom, sem á 23 leiki fyrir U23 og U20 landslið Brasilíu, er samningsbundinn Zenit til júní 2027 og mun að öllum líkindum kosta meira en 60 milljónir evra.

Zenit trónir á toppi rússnesku deildarinnar með 42 stig eftir 17 umferðir og sex stiga forystu á Spartak Moskvu.


Athugasemdir
banner
banner