„Hundsvekkjandi að vera einum fleiri frá 2. mínútu og ná ekki að klára þetta. VIð erum vonsviknir með eitt stig," sagði Birkir Valur Jónsson sem bar fyrirliðabandið hjá HK í dag þegar liðið gerði jafntefli gegn KA á Akureyri.
Lestu um leikinn: KA 1 - 1 HK
„Mér finnst eins og við slökum aðeins á, spilum hægt. Við leyfum þeim að liggja aftur og náum ekki að opna þá, þeir vörðust vel og við höfðum engin svör við því."
KA menn spiluðu ekki eins og þeir eru vanir.
„Það var skrítið að vera einum fleiri og þeir mjög aftarlega. Við höfum spilað tvisvar áður við KA á þessu tímabili og þeir hafa pressað okkur framar," sagði Birkir Valur.
„Okkur fannst inn í klefanum að við hefðum bara verið í fyrsta eða öðrum gír og ættum inni meira tempó og við vorum að tapa 50/50 boltum í fyrri hálfleik. Bættum það aðeins og fáum gott mark eftir aukaspyrnu en náum ekki að fylgja því eftir," sagði Birkir Valur.
Þetta var fjórða jafntefli HK í röð.
„Við fáum á okkur mörg mörk fyrri partinn í mótinu, tökum svo aðeins til í varnarleiknum. Við erum búnir að verjast vel síðustu 4-5 leiki. Nú þurfum við bara sama sóknarleikinn og var fyrri partinn á mótinu með þessu þá erum við í toppmálum," sagði Birkir Valur.























