„Við erum ánægðir með leikinn. Við spiluðum hann mjög vel," segir Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, en eftir sigur í lokaumferðinni í dag er ljóst að Eyjamenn halda sæti sínu í Pepsi-deildinni.
Lestu um leikinn: ÍBV 3 - 0 KA
Hann segir að það hafi verið mikilvægt að skora snemma og viðurkennir að það hafi komið upp smá hræðsla hjá sér þegar Gunnar Heiðar Þorvaldsson brenndi af víti í stöðunni 1-0.
„Ég vissi að Skaginn hefði brennt af víti og þegar Gunnar brenndi af þá fór maður að hugsa ýmislegt. Ég get viðurkennt það."
„Við erum alveg sáttir við niðurstöðu tímabilsins. Við unnum þennan stóra titil sem bikarinn er og endum í sama sæti og í fyrra. Við vildum vera lausir við að berjast um fall í lokin."
Vangaveltur hafa verið um framtíð Kristjáns og hann segist vilja vera áfram með ÍBV.
„Það er búið að vera rosalega gaman að vinna hérna, ég hef lært gríðarlega mikið á þessu ári. Það er hrikalega gaman að vinna með fólkinu," segir Kristján.
Athugasemdir