mið 30. september 2020 23:21
Sverrir Örn Einarsson
Sindri Kristinn hafnaði Harry Kewell og Oldham
Lengjudeildin
Sindri mun verja mark Keflavíkur áfram
Sindri mun verja mark Keflavíkur áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur hefur hafnað samningstilboði frá Oldham Athletic sem leikur í League 2 á Englandi. Sindri sem er 23 ára hefur verið aðalmarkvörður Keflavíkur frá árinu 2015 og leikið alls 108 leiki í deild og bikar fyrir félagið. Óformlegar þreifingar milli aðila hafa átt sér stað undanfarnar vikur en Oldham lagði fram samningstilboð í dag og setti það skilyrði að svar yrði að berast fyrir miðnætti sem Sindri hefur gert og hafnað tilboðinu.

Oldham er án stiga í ensku D-deildinni þegar þremur umferðum er lokið en liðið leikur undir stjórn Harry Kewell sem gerði garðinn frægan á fyrsta áratug þessarar aldar með liðum eins og Leeds, Liverpool og Galatasary.

Það eru mikil gleðitíðindi fyrir Keflavík að Sindri klári tímabilið með liðinu enda liðið í kjörstöðu að vinna sér sæti í Pepsi Max deildinni að ári þar sem liðið lék síðast tímabilið 2018.

Í samtali við Fótbolta.net í kvöld sagði Sindri.

„Þetta var eiginlega ein sú erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið en samt sem áður var þetta rétta ákvörðunin eftir mörg góð samtöl við gott fólk.“

„Það var ýmislegt sem fékk mig til að halda áfram í Keflavík. Fyrst og fremst krafturinn sem virðist vera innan félagsins og spilamennska liðsins. Einnig fannst mér ekki rétt gagnvart stuðningsmönnum og liðsfélögum mínum að fara frá borði í þessari baráttu sem liðið er í.“

Sagði Sindri sem mun standa í marki Keflavíkur gegn Leikni F. þegar liðin mætast á Nettóvellinum næstkomandi laugardag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner