banner
   fös 30. október 2020 19:29
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Baldvin Ólafsson: Ekki séð yfirlýsingu á KSÍ um að þessi lið séu fallin
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég segi bara allt í lagi. Ég held að við vorum búnir að átta okkur á því að svona færi þetta um leið og hert var á aðgerðum á ný. Þó KSÍ hafi ekki verið búið að segja það þá hljómaði það á þann veg í upprunalegri yfirlýsingu. Við erum þokkalega brattir. Það eru til stærri hlutir en fótbolti í lífinu, við erum þar akkúrat núna en auðvitað hundsvekktir," sagði Baldvin Ólafsson, spilandi aðstoðarþjálfari Magna.

Magni endar í næstneðsta sæti Lengjudeildarinnar. Einungis tuttugu umferðir fóru fram, tvær áttu eftir að fara fram áður en mótinu var hætt. KSÍ sendi tilkynningu þess efnis nú í kvöld. Magni var einu marki frá því að halda sér uppi.

Veit ekki hvort það sé niðurstaða KSÍ að liðin falli
„Við vorum búnir að heyra af hugmyndum að ekkert lið yrði fellt og að í eitt ár yrði spilað með fleiri lið í deild og fleiri myndu falla á næsta ári. Ég hef ekki séð yfirlýsingu á KSÍ um að þessi lið séu fallin, heldur bara lesið það á Fótbolti.net. Ég veit ekki hvort KSÍ hafi gefið það sérstaklega út. Auðvitað er langlíklegast að sú sé niðurstaðan og markatalan sé það sem felli okkur."

„Við vorum ekki búnir að ræða saman um þessa mögulegu niðurstöðu. Við vorum að undirbúa það að við ættum leik núna 8. nóvember og vorum búnir að æfa vel. Við vorum með þrjá af fjórum útlendingum ennþá hjá okkur og vinnum núna í að koma þeim heim til sín áður en allt lokar. Við vorum að einbeita okkur að því að klára mótið í 22 leikjum, að tryggja sætið okkar. Svo varðandi eitthvað framhald þá var einn í hópnum að grínast með að lokahófið yrði í mars."


Finnst Baldvini það rétt niðurstaða að slaufa mótinu á þessum tímapunkti og á þennan hátt?

„Akkúrat núna að aflýsa mótinu þá er svarið já. En að láta lið falla svona finnst mér ekkert endilega rétt. Ég á eftir að sjá hvað kemur út úr því. Ég skil það vel að slaufa mótinu, það eru til stærri hlutir í lífjnu en fótbolti," sagði Baldvin að lokum.
Athugasemdir
banner
banner