fim 30. október 2025 13:40
Kári Snorrason
Birnir Snær: Fylgdi kvíði þegar ég tilkynnti KA þetta
Birnir Snær Ingason.
Birnir Snær Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Birnir Snær Ingason skrifaði nýverið undir samning til þriggja ára við Stjörnuna. Birnir var á mála hjá KA í sumar en hann gekk til liðs við félagið um mitt tímabil og skrifaði undir fjögurra mánaða samning.

Hjá KA var hann einn af lykilmönnum liðsins en hann var fenginn til liðsins frá Halmstad eftir að hafa verið eitt og hálft tímabil í sænsku úrvalsdeildinni.

Birnir segir dvölina fyrir norðan hafa verið góða og talaði vel um félagið í viðtali við Fótbolta.net í gærdag.


„Þegar ég var á Akureyri leið mér ennþá eins og ég væri í útlöndum. Mér finnst ég fyrst núna vera kominn til Íslands þegar ég er kominn til Reykjavíkur.“ 

„Þessir mánuðir voru geggjaðir, þeir komu á óvart. Það er ekki hægt að kvarta yfir neinu þarna, frábær klúbbur, þjálfari, stuðningsmennirnir og allir í kringum klúbbinn. Það gekk allt mjög vel upp og okkur leið vel þarna.“ 

Var erfitt að kveðja KA?

„Það var mjög erfitt þegar ég tilkynnti þeim það. Ég ætla ekkert að ljúga því, það fylgdi því alveg kvíði. Okkur leið svo vel þarna og það gekk vel. Það gerði þetta svo erfitt.“ 

Birnir var einnig spurður hvort staðsetning Stjörnunnar skipti máli við ákvörðun hans um félagaskiptin.

„Já, það skiptir máli að Stjarnan er á höfuðborgarsvæðinu. Við erum að fara eignast annað barn í febrúar. Mamma mín og pabbi búa hérna og tengdamamma."



Birnir Snær: Það er alvöru framleiðsla í Garðabænum
Athugasemdir
banner