Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 09. maí 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 2.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í öðru sætinu í þessari spá voru Eyjamenn sem fengu 198 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um ÍBV.

.
2.sæti ÍBV
Búningar: Hvít treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.ibv.is

ÍBV er spáð öðru sæti í deildinni í ár en þeim var einnig spáð þessu sæti í fyrra. Þá reyndist liðið ekki nægilega sterkt þegar á reyndi og hafnaði í fjórða sætinu. Liðið átti reyndar mjög góðan lokasprett í fyrra en í byrjun móts töpuðust dýrmæt stig. Þjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur líklega notað veturinn vel í að reyna að finna lausn á því.

Fótboltahefðin er sterk í Vestmannaeyjum og erfitt fyrir heimamenn að horfast í augu við að liðið sé ekki lengur að berjast í deild þeirra bestu. Liðið er klárlega nægilega vel mannað til að gera atlögu að úrvalsdeildarsæti í ár. Heimir hefur þó lítið getað stillt upp sínu sterkasta liði saman á undirbúningstímabilinu og má búast við að liðið muni verða sterkara þegar á líður sumarið.

ÍBV hefur misst Ian Jeffs sem var magnaður með liðinu seinni hluta síðasta tímabils en hann kom um mitt mót. Jeffs skoraði níu mörk í ellefu leikjum og var valinn í lið ársins í 1. deild.

Þá hafa orðið markmannsskipti hjá liðinu en Henrik Bødker og Hrafn Davíðsson eru farnir annað. Það mun þó enginn aukvisi standa á milli stangana því liðið hefur fengið Albert Sævarsson frá Njarðvík og er hann klárlega einn sterkasti markvörður deildarinnar.

Þrír brasilískir leikmenn komu til liðsins en tveir standa eftir þar sem einn var sendur heim vegna agabrots. Tvennum sögum fer af styrkleika þessara leikmanna en þeir hafa ekki styrkt liðið eins mikið og margir vonuðust eftir. Fyrir hjá ÍBV voru tveir leikmenn frá Úganda en Eyjamenn fara sjaldgæfar en skemmtilegar leiðir í leit að erlendum liðsstyrk.

ÍBV hefur fínt baráttulið og nokkra leikmenn sem gætu vel staðið sig með mikilli prýði í úrvalsdeildinni. Það er því alveg ljóst að Eyjamenn verða erfiðir viðureignar á komandi tímabili. Það hefur oft reynst erfitt fyrir lið að koma til Eyja og sækja stig en ÍBV náði í fleiri stig úti en heima á síðasta tímabili. Það er ansi athyglisverð staðreynd.

Styrkleikar: ÍBV hefur virkilega sterkt byrjunarlið. Liðið er vel mannað í vörninni og þar fyrir aftan er virkilega góður markvörður. Liðið er með hraða sóknarlínu þar sem Atli Heimisson nær oftast að skapa mikinn usla í vörn andstæðingana. Breytingarnar á liðinu frá því í fyrra eru ekki stórtækar og liðið er með nokkra baráttuglaða heimamenn.

Veikleikar: Sterkasta lið ÍBV hefur lítið spilað saman í vetur og því spurning hvernig liðið mætir til leiks í fyrstu leikina. Það gæti tekið sinn tíma að spila liðinu almennilega saman. Aðstaða til æfinga yfir vetrartímann í Vestmannaeyjum er í einu orði sagt léleg og er ÍBV talsvert á eftir öðrum liðum í deildinni hvað þetta varðar. Ian Jeffs er farinn og liðið gæti saknað hans.

Þjálfari: Heimir Hallgrímsson. Það má búast við því að það verði talsverð pressa á tannlækninum Heimi í sumar. Hann fór með liðinu niður í þessa deild og mistókst í fyrra að koma því upp. Það er þó ekki hægt að efast um að Heimir sinni þessu verkefni af heilum hug enda fáum sem er jafn annt um félagið.

Lykilmenn: Matt Garner, Andri Ólafsson og Atli Heimisson.

Komnir: Albert Sævarsson frá Njarðvík, Alexandre da Silva Alves Cerdeira (Alex) frá Brasilíu, Italo Jorge Pelanda Maciel (Italo) frá Brasilíu, Steinar Ernir Knútsson frá Fjölni.

Farnir: Henrik Bødker í Hött, Ian Jeffs í Fylki, Hrafn Davíðsson í Fjölni, Jonah David Long til Bandaríkjanna, Stefán Björn Hauksson í KFS, Egill Jóhannsson í KFS, Sindri Viðarsson í KFS, Stefán Björn Hauksson í KFS.



Spá fyrirliða og þjálfara:
1. Víkingur R. 228
2. ÍBV 221 stig
3. Stjarnan 198 stig
4. Fjarðabyggð 171 stig
5. Haukar 123 stig
6. Selfoss 119 stig
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner