Alonso, Neto, Eze, Greenwood, Ramaj, Alli, Son og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 11. maí 2010 23:24
Alexander Freyr Tamimi
Umfjöllun: Keflvíkingar sigruðu bitlausa Blika í Kópavogi
Alen Sutej átti góðan leik fyrir Keflvíkinga og skoraði sigurmark leiksins.
Alen Sutej átti góðan leik fyrir Keflvíkinga og skoraði sigurmark leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Breiðablik 0 - 1 Keflavík
0-1 Alen Sutej ('36)

Keflvíkingar hirtu öll stigin í pottinum á Kópavogsvelli þegar þeir mættu Breiðablik í 1. umferð Pepsi-deildar karla í sumar. Mark Keflvíkinga skoraði varnarmaðurinn Alen Sutej með skalla eftir hornspyrnu.

Leikurinn var heldur daufur til að byrja með og létu færin ekki sjá sig líkt og svo oft vill gerast á vordögum. Smám saman lifnaði þó aðeins yfir leiknum og voru það Keflvíkingarnir sem voru með völdin framan af. Sóknarleikur Breiðabliks var heldur hugmyndasnauður og voru gestirnir mun líklegri til afreka.

Þegar um hálftími var liðinn fóru hlutirnir þó að taka á sig aðra mynd en heimamenn fóru þá að sýna ágætis takta og áttu nokkrar frambærilegar sóknir. Á 29. mínútu átti Guðmundur Pétursson ágætis skalla sem fór rétt yfir markið og í kjölfarið fylgdu nokkrar ágætar sóknir sem eitthvað vantaði þó í.

Þegar 36 mínútur voru liðnar kom fyrsta mark leiksins eftir sofandagang í vörn Blika. Keflvíkingar fengu þá hornspyrnu sem var tekin stutt en enginn varnarmaður hafði vit á því að fara á móti Guðmundi Steinarssyni sem fékk boltann og kom með fína fyrirgjöf inn í teig. Þar var Alen Sutej mættur á fjarstöng og stangaði hann knöttinn í netið og staðan orðin 1-0 fyrir Keflvíkingum.

Blikar settu smá þunga í sóknina og freistuðu þess að jafna metin fyrir leikhlé en allt kom fyrir ekki og voru Keflvíkingar enn með forystuna þegar flautað var til leikhlés.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og voru Keflvíkingarnir ívið sterkari. Eftir rúmar tíu mínútur fengu þeir kjörið tækifæri til að auka forskot sitt og koma sér í þægilega stöðu þegar Hörður Sverrisson komst einn í gegn en Ingvar Kale varði vel í markinu.

Áfram héldu gestirnir að sækja og fengu þeir þó nokkur færi til að auka forskot sitt. Alen Sutej átti annan góðan skalla eftir hornspyrnu sem Ingvar varði vel og skömmu síðar átti Jóhann Birnir Guðmundsson fínt skot sem fór rétt framhjá, en Jóhann kom inn á fyrir Guðmund Steinarsson í hálfleik. Guðmundur er með flensu og gat því ekki spilað meira í leiknum.

Fátt markvert gerðist síðan þar til um stundarfjórðungur var eftir en þá fengu Blikar frábært tækifæri til að jafna metin. Alfreð Finnbogason kom með fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á dauðafríum Hauki Baldvinssyni en varamaðurinn Haukur náði ekki að stýra skallanum almennilega og endaði knötturinn í höndunum á Ómari markverði Keflvíkinga.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var framið ljótt brot þegar Magnús Þórir Matthíasson tæklaði Arnór Svein Aðalsteinsson illa. Arnór Sveinn lá óvígur eftir og þurfti að yfirgefa völlinn á sjúkrabörum en Magnús fékk gult spjald. Vildu stuðningsmenn Blika sjá annan lit á spjaldinu en Þorvaldur Árnason dómari lét gult nægja.

Fátt gerðist markvert þær mínútur sem eftir voru af leiknum að frátöldum darraðadans í vítateig Keflvíkinga rétt undir lokin. Blikarnir vildu að vítaspyrna yrði dæmd en aftur á móti var aukaspyrna dæmd á Breiðablik við lítinn fögnuð leikmanna sem og stuðningsmanna þeirra.

Skömmu síðar var flautað til leiksloka og var 1-0 útisigur Keflavíkur staðreynd. Mjög góð þrjú stig fyrir Keflvíkingana í Kópavoginum en Blikar verða að sýna á sér betri hliðar ef þeir ætla að standa undir þeim væntingum sem gerðar voru til þeirra, en sérfræðingar Fótbolti.net spáðu liðinu í 3. sæti deildarinnar. Frammistaða Ingvars Kale í markinu var þó jákvæð og gæti hans frammistaða skipt sköpum ef Blikum tekst að laga sóknarleik sinn, sem var slakur í kvöld.

Margt jákvætt var að finna í leik Keflvíkinga. Alen Sutej var mjög sterkur og Jóhann Birnir hafði nokkur tækifæri til að skora. Almennt var liðið þokkalega vel spilandi og virðist Willum Þór Þórsson þjálfari hafa unnið gott starf á undirbúningstímabilinu.

Lið Breiðabliks: Ingvar Þór Kale, Finnur Orri Margeirsson ('73 Andri Rafn Yeoman), Elfar Freyr Helgason, Kári Ársælsson, Kristinn Steindórsson, Alfreð Finnborgason, Olgeir Sigurgeirsson ('64 Haukur Baldvinsson), Guðmundur Kristjánsson, Kristinn Jónsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson ('89 Elvar Páll Sigurðsson), Guðmundur Pétursson.

Lið Keflavíkur Ómar Jóhannsson, Alen Sutej, Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Ian Paul McShane ('87 Brynjar Örn Guðmundsson), Guðmundur Steinarsson ('46 Jóhann Birnir Guðmundsson), Magnús Sverrir Þorsteinsson, Magnús Þórir Matthíasson ('90 Ómar Karl Sigurðsson), Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Hörður Sveinsson.

Gul spjöld: Haraldur Freyr Guðmundsson (Keflavík), Olgeir Sigurgeirsson (Breiðablik), Magnús Þórir Matthíasson (Keflavík).

Áhorfendur: 1680
Dómari: Þorvaldur Árnason
Maður leiksins: Ingvar Kale, Breiðablik

banner
banner
banner
banner