þri 20. júlí 2010 10:30
Alexander Freyr Tamimi
Heimild: Sky 
Redknapp svekktur yfir því að hafa misst af Joe Cole
Við munum sjá Joe Cole klæðast rauðu oft á komandi tímabili.
Við munum sjá Joe Cole klæðast rauðu oft á komandi tímabili.
Mynd: Getty Images
Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham segist vera svekktur yfir því að hafa ekki tekist að fá Joe Cole til Lundúnarliðsins en óskar leikmanninum jafnframt góðs gengis hjá Liverpool.

Redknapp fór ekki leynt með áhuga Tottenham á Cole sem var frjáls ferða sinna eftir að samningur hans við Chelsea rann út, en á endanum vann Liverpool kapphlaupið um þennan 28 ára enska landsliðsmann.

Redknapp viðurkennir að Tottenham hafi reynt allt hvað þeir gátu til að fá leikmanninn til sín en hann telur jafnframt að ákvörðun Cole hafi ekki snúist um peninga og segist hann virða ákvörðun leikmannsins.

„Við reyndum okkar allra besta til að fá hann og stjórnarformaðurinn bauð honum frábæran samning," sagði Redknapp í pistli í The Sun.

„En þegar uppi var staðið vorum við að berjast við félag með áralanga sögu og hefð, eitt stærsta félag í heimi.“

„Ég fékk mjög indæl skilaboð frá Joe þar sem hann greindi mér frá ákvörðun sinni. Hann útskýrði þetta fyrir mér og ég held að ákvörðunin sé algerlega knattspyrnutengd. Hann vill vera hluti af endurreisn Liverpool og kannski hentar það honum vel að komast burt frá Lundúnum.“

„Hver sú sem ástæða hans er hefur hann verið hreinskilinn allan tímann og mannasiðir hans og einlægni eru óviðjafnanleg. Ég mun alltaf líta á hann sem 11 ára strákinn sem ég kom auga hjá þegar ég var hjá West Ham og ég óska honum alls hins besta."

banner
banner
banner