Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   þri 01. mars 2011 12:30
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fávitaskapur
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Wayne Rooney og Barry Ferguson skiptu helginni jafnt á milli sín og buðu upp á hegðun sem á ekki að sjást á knattspyrnuvellinum. Þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta skipti sem þessar vonarstjörnur enskrar og skoskrar knattspyrnu hegða sér illa. Þetta og fleira í fávitaskap dagsins.

Rooney átti að sjá rautt
Allir sem fylgjast með enska boltanum hafa séð olnbogaskotið sem Rooney gaf James McCarthy í leiknum gegn Wigan. Atvikið átti sér stað snemma leiks og ljóst að rautt spjald hefði haft mikil áhrif á leikinn. Reyndar missti ég af umtöluðum leik en eftir því sem ég kemst næst voru Wigan menn ekki síðri í fyrri hálfleiknum í það minnsta. Van der Saar var hins vegar bjargvættur United.

Skoðanir manna voru skiptar að loknum leik. Sérfræðingar BBC þeir Alan Hansen og Mark Lawrenson töluðu til dæmis um að Rooney væri í slæmum málum. Roberto Martinez sagði hins vegar að ástæða þess að rauða spjaldið fór ekki á loft var vegna þess að sá seki var Wayne Rooney. Hefðu Lee Cattermole eða Joey Barton fengið sömu meðferð? Mér þykir það ólíklegt. Ekki vegna þess að dómararnir séu óheiðarlegir heldur þarf umtalsvert meiri kjark til að reka eina stærstu stjörnu enska boltans útaf eftir nokkurra mínútna leik en að senda annálaðan vandræðagemsa sem enginn þolir í snemmbúna sturtu.

Mín ágiskun er sú að Clattenburg hafi séð Rooney útundan sér rekast á McCarthy. Boltinn var víðs fjarri og því eðlilegt að Clattenburg hafi ekki verið að einbeita sér að hlaupaleið Rooney. Hann dæmir aukaspyrnu, líklega vegna viðbragða McCarthy sem stoppar og grípur um hausinn.

Þegar hann svo kemur fyrir aganefnd knattspyrnusambandsins hefur hann tvo möguleika. Segjast ekki hafa séð olnbogaskotið, breyta dómnum í rautt spjald en þurfa um leið að útskýra af hverju í ósköpunum hann dæmdi aukaspyrnu á eitthvað sem hann sá ekki vel. Bara útundan sér eins og ég giska á. Hinn möguleikinn er að standa við ákvörðunina, ekki reyta Ferguson til reiði og þar með hugsanlega missa af tækifærum til þess að dæma leiki United. Hann valdi þann síðari.

Rooney sleppur með skrekkinn og er því tiltækur í næstu 3 leiki gegn Chelsea, Liverpool og Arsenal. Þokkalegt prógramm það. Hvort hann styrki liðið í þessum leikjum skal ósagt látið.

Skoskt met í leiðindum
Er eitthvað verra en að liggja í jörðinni, vitandi að slæm mistök þín kostuðu lið þitt fyrsta titilinn í 6 ár? Já, þegar skoskur fáviti slær þig fast í hausinn í fagnaðarlátunum.

Einhverjir hafa talað um að það sé algengt að leikmenn strjúki mönnum um kollinn eftir að þeir gera mistök. Nei, það var ekki það sem gerðist í þessu tilviki. Þetta var ekkert ‘Lothar Matthaus að sleppa fagnaðarlátum til þess að hughreysta Chris Waddle eftir vítaspyrnuklúður hans’ dæmi.

Sem betur fer tweet-aði Jack Whilshere sem varð til þess að þetta atvik fékk verðskuldaða athygli:

“Well done to the BCFC player who slapped Koscielny on the head when they scored, very big of you!”

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ferguson sýnir algert dómgreindarleysi. Hann hlýtur að eiga skoskt met ef ekki heimsmet í að láta taka fyrirliðabandið af sér fyrir slæma hegðun. Þá sáum við Íslendingar verri hliðina á honum í landsleik á Hampden um árið þegar hann sendi skoskum áhorfendum dónaleg skilaboð með fingrunum.

Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef Ferguson verður ekki refsað fyrir þetta athæfi.

Rory Delap og innköstin
Að lokum verð ég að minnast á Rory Delap. Ég fylgdist með síðari hálfleiknum hjá Stoke og WBA í gærkvöld og þar tók okkar maður innkast “á hættulegum stað”. Stóru mennirnir skokkuðu fram, Delap fann handklæði, djúphreinsaði og þurrkaði boltann, mótaði gripið á honum, tók langt tilhlaup OG kastaði boltanum inn á teig.

Hvað á Stoke að fá langan tíma til þess að taka innkast? Ég fullyrði að ef einhver gæfi sér jafnlangan tíma til þess að taka “venjulegt” innkast úti á miðjum velli þá yrði boltinn dæmdur af honum. Þá meina ég ef leikmaður tæki boltann og byrjaði að horfa í allar áttir eftir möguleikum, finna engan samherja, varnarmenn baða út höndum og kvarta en leikmaðurinn gefur sér bara enn meiri tíma. Dómarinn flautar og dæmir hinu liðinu boltann.

Mér finnst ekkert að því að Stoke njóti krafta Delap þegar kemur að innköstunum. Hins vegar hugsa ég að þessi innköst endi á því að vera leið auglýsingahléa inní fótboltann.

“Stoke fær innkast og við fáum örstuttar auglýsingar”

AUGLÝSINGAR

“Við erum komin aftur á Brittannia þar sem Rory Delap er við það að taka innkast…”

Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com
banner
banner