Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   lau 11. júní 2011 19:48
Elvar Geir Magnússon
Umfjöllun: Martraðabyrjun á Evrópumótinu
Elvar Geir Magnússon skrifar frá Danmörku
Aron Einar Gunnarsson eftir rauða spjaldið.
Aron Einar Gunnarsson eftir rauða spjaldið.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Kolbeinn Sigþórsson fékk bestu færi Íslands.
Kolbeinn Sigþórsson fékk bestu færi Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Eggert Gunnþór í baráttu við Denis Polyakov.
Eggert Gunnþór í baráttu við Denis Polyakov.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Bjarni Guðjónsson lýsti leiknum á RÚV.
Bjarni Guðjónsson lýsti leiknum á RÚV.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Ísland 0 - 2 Hvíta-Rússland
0-1 Andrei Vorinkov ('77)
0-2 Maksim Skavysh ('87)
Rautt spjald: Aron Einar Gunnarsson (Ísland) ('76)

Ísland tapaði leiknum sem allir hafa talað um að liðið mætti ekki tapa. Fyrsti leikur Evrópumótsins gegn Hvíta-Rússlandi fór 0-2 þó greinilega hafi sést á leiknum að Ísland er með betra lið en mótherjar dagsins. Fótbolti snýst um að skora mörk og það gerði íslenska liðið ekki.

Ekki nóg með að leikurinn tapaðist heldur fékk yfirburðarmaður Íslands í leiknum, Aron Einar Gunnarsson, brottvísun og verður í leikbanni í næsta leik sem er gegn sterku liði Sviss.

Fyrri hálfleikur var langt frá því að vera augnakonfekt, aðgerðir íslenska liðsins voru of hægar og liðið mjög ólíkt sjálfu sér. Hvít-Rússarnir eru ekki með mjög spennandi lið en spiluðu gríðarlega skynsamlega, biðu til baka á meðan Íslandi skorti hugmyndir til að skapa sér færi. Ísland fór kannski full varfærnislega inn í leikinn.

Í seinni hálfleik fóru að sjást betri tilburðir sóknarlega og Kolbeinn Sigþórsson fékk þrjú mjög góð færi til að skora sem ekki nýttust. Íslenska markið virtist liggja í loftinu þegar reiðarslagið kom... Hólmar Örn Eyjólfsson, sem fram að þessu hafði átt fínan leik, missti andstæðing sinn framhjá sér. Aron Einar braut af sér og vítaspyrna dæmd.

Algjört áfall og makedónski dómarinn ákvað að strá enn meira salti í sárin með því að lyfta upp rauða spjaldinu og reka besta leikmann Íslands af velli. Strangur dómur. Þetta atvik hafði greinilega mikil áhrif á liðið og áttum við í raun ekki í möguleika eftir þetta. Hvíta-Rússland gerði svo algjörlega út um allar vonir á 87. mínútu.

Vel svekkjandi úrslit og liðið strax komið með bakið upp við vegg. Leikmenn sjálfir hafa þó trú á því að þeir geti enn farið áfram. Það var algjörlega ljóst í viðtölum eftir leik. Meðan þeir trúa því þá trúir maður því sjálfur. Það voru jú þeir sem léku Þjóðverjana grátt.

Leikurinn í kvöld hefði samt varla getað farið verr. Ofan í tapið kemur leikbann Arons Einars og einnig meiðslin hjá Jóhanni Berg Guðmundssyni sem fór af velli eftir hálftíma og gæti þátttöku hans á mótinu verið lokið.

Maður leiksins: Aron Einar Gunnarsson.



Leiknum er lokið með 0-2 sigri Hvíta Rússlands. Frekari umfjöllun um leikinn, myndir og viðtöl koma hér á Fótbolta.net síðar í kvöld.

90 mín: Uppbótartíminn er þrjár mínútur.

87. mín: MARK!
Hvít Rússar komnir í 0-2. Varamaðurinn Maksim Skavysh bætir við öðru marki eftir að hafa komist einn gegn Haraldi og skotið á markið. Hólmar Örn gerði heiðarlega tilraun til að bjarga á línu en tókst ekki.


84. mín: Íslendingar hafa farið ofar á völlinn og við það opnast svolítið aftur á við. Hvít Rússarnir eru því að komast í færi úr hröðum sóknum en Íslendingar freista þess að ná að jafna metin. Alexandr Perepchko hefur átt tvö góð færi en skotið framhjá. Það er erfitt að vera manni færri.

82. mín: Síðasta skipting Íslands
Birkir Bjarnason kemur inná í stað Bjarna Þórs Viðarssonar.

Twitter - Guðmundur Benediktsson:
Besti leikmaður leiksins Aron Einar rekinn útaf, andskotinn! #eittnúllundir

80. mín: Dragun er stórhættulegur, nú átti hann gott skot með jörðinni sem Haraldur Björnsson markvörður Íslands varði í horn.

79. mín: Gult spjald
Rúrik Gíslason fær áminningu fyrir brot.

77. mín: MARK!
Andrei Vorinkov skorar úr vítaspyrnunni. Staðan orðin 1-0 fyrir Hvíta Rússland. Honum var svo í kjölfarið skipt af velli fyrir Maksim Skavysh.


76. mín: Rautt spjald og víti
Stanislav Dragun fór framhjá þremur varnarmönnum og var við það að skjóta af stuttu færi þegar Aron Einar fór aftan í hann. Aron Einar fékk að líta rauða spjaldið fyrir að taka af honum marktækifærið og vítaspyrna dæmd.

73. mín: Kolbeinn vann skallaeinvígi og slapp einn gegn markverðinum en skot hans var varið.

Twitter - Birgir H. Stefánsson
er ekki alveg sáttur með þessa Íslendinga sem eru á vellinum í DK, þetta er ekki bókasafn gott fólk! #fotbolti

69. mín: Kolbeinn Sigþórsson skallar framhjá eftir hornspyrnu Gylfa Þórs.

65. mín: Gult spjald
Sergei Politevich fær að líta gula spjaldið fyrir ljótt brot á Aroni Einari.

62. mín: Skipting
Rúrik Gíslason er kominn inná í stað Arnórs Smárasonar.

61. mín: Kolbeinn komst í dauðafæri en setti boltann framhjá. Alfreð Finnbogason sendi boltann innfyrir vörn Hvít Rússa og á Kolbein sem var einn gegn markverði en skotið var varið í horn..

57. mín: Eyjólfur Sverrisson þjálfari Íslands biður sína menn að vera þolinmóðir. Hann er að undirbúa skiptingu því Rúrik Gíslason er að gera sig kláran.

54. mín: Enn rólegt í síðari hálfleiknum. Hvít Rússar eru að verjast vel og bíða átekta eftir hröðum sóknum en leyfa Íslendingum að hafa boltann meira.

49. mín: Everton-mennirnir David Weir, David Unsworth og Alan Stubbs eru meðal áhorfenda. Eru greinilega á einhverju þjálfaranámskeiði og punkta vel

46. mín: Síðari hálfleikur er hafinn.

45 . mín: Hálfleikur, hér er tölfræðin úr fyrri hálfleik.

Hvíta Rússland - Ísland:
Marktilraunir: 1-1
Skot á mark: 1-0
Skot framhjá: 0-1
Skot varin: 0-0
Varin skot: 0-1
Horn: 1-2
Rangstöður: 0-1
Með boltann: 44%-56%
Brot framin: 10-10
Gul spjöld: 1-0
Rauð Spjöld: 0-0

45 . mín: Einni mínútu bætt við venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik.

42. mín: Íslendingar hafa verið með boltann 57% á móti 43% hjá Hvít Rússunum.

40. mín: Leikurinn er mjög tíðindalaus og lítið að gerast ennþá.

Twitter - Andri Ólafsson
Miðað við það sem er búið af leiknum þá erum við með betri leikmenn. Þeir með betra lið. #minskodun #tactics #pundit

32. mín: Skipting
Alfreð Finnbogason kemur inn á hjá Íslandi, Jóhann Berg fer meiddur af velli.

30. mín: Jóhann Berg getur ekki haldið leik áfram og óskar eftir skiptingu. Alfreð Finnbogason er að gera sig kláran.

26. mín: Fyrsta gula spjaldið fær leikmaður númer 8 hjá Hvít Rússum. Nikita Bukatkin fyrir brot á Aroni Einari.

24. mín: Haraldur varði lágt skot frá Hvít Rússa, engin hætta í sjálfu sér. Jóhann Berg er kominn inná aftur.

23. mín: Jóhann Berg finnur til eymsla á öxl. Leikurinn er hafinn að nýju og Jóhann Berg er enn utan vallar.

22. mín: Jóhann Berg liggur á vellinum meiddur eftir að Hvít Rússi lenti á honum eftir skallabolta.

Twitter Daníel Rúnarsson
Haraldur stendur undir nafni, skógarhlaup eftir 7 mín #VilltaVestrið #fótbolti #u21

16. mín: Íslendingar eru meira með boltann en ekkert um alvöru færi ennþá.

10. mín: Það rignir í Árósum og stuðningsmenn Íslands syngja "Mér finnst rigningin góð" í stúkunni.

8. mín: Leikurinn fer rólega af stað fyrstu mínúturnar. Hvít Rússar voru að sleppa í gegn rétt í þessu en Haraldur Björnsson kom langt út úr marki sínu og þrumaði boltanum í burtu.

16:00: Leikurinn er hafinn. Ísland byrjar með boltann. Byrjunarliðið okkar er hér að neðan.


15:55: Það er ánægjulegt að sjá hversu margir af íslensku strákunum taka undir og syngja þjóðsöng Íslands. Nokkuð sem hefur verið alltof sjaldséð í gegnum árin hjá íslensku fótboltalandsliði.

15:54: Liðin eru komin út á völl og nú eru þjóðsöngvarnir leiknir, fyrst sá íslenski.

Twitter: Tómas Meyer
Tilhlökkunin er mikil og spennan er að magnast hjá mér. U21 árs, vonin sem Ísland ól og við öll erum stolt af Áfram Ísland!!! #fotbolti

15:48 Það er ljóst að stúkurnar verða tómlegar á þessum velli og mikið um auð sæti. Áhorfendur frá Hvíta-Rússlandi eru teljandi í fingrum annarrar handar.

15:43 Menn hafa mikið verið að velta því fyrir sér hvernig varnarlína Íslands eigi að vera. Eyjólfur ákveður að nota Eggert Gunnþór í hægri bakverði en Hólmar Örn og Jón Guðni Fjóluson eru í hjarta varnarinnar.

15:40 Leikurinn fer fram í Árósum á velli sem tekur rétt tæplega 20 þúsund manns. Dómari í dag er Makedóníumaðurinn Aleksandar Stavrav en aðstoðarmenn hans eru Mark Borsch frá Þýskalandi og Michael Soteriou frá Kýpur.

15:38 Liðin eru þessa stundina að hita upp á vellinum. Hér má sjá slatta af Íslendingum sem búsettir eru hér í Danmörku meðal áhorfenda.

15:36 Minnum fólk á að nota hashtagið #fotbolti ef skrifaðar eru færslar tengdum leiknum á Twitter. Valdar færslur verða birtar í þessari textalýsingu

Lið Hvíta Rússlands: Aleksandr Gutor (m), Stanislav Dragun, Sergei Politevich, Dmitri Baga, Mikhail Sivakov, Nikita Bukatkin, Vladimir Yurchenko, Andrey Voronkov, Denis Polyakov, Oleg Veretilo, Yegor Filipenko.

15:29 Komið þið sæl og velkomin í beina textalýsingu frá leik Íslands og Hvíta-Rússlands, fyrsta leik Evrópumóts U21 landsliða. Hér að neðan má sjá byrjunarlið Íslands.

Markvörður: Haraldur Björnsson.
Hægri bakvörður: Eggert Gunnþór Jónsson.
Miðverðir: Jón Guðni Fjóluson og Hólmar Örn Eyjólfsson.
Vinstri bakvörður: Hjörtur Logi Valgarðsson.
Miðjumenn: Bjarni Þór Viðarsson (f) og Aron Einar Gunnarsson.
Sóknartengiliður: Gylfi Þór Sigurðsson.
Hægri kantmaður: Arnór Smárason.
Framherji: Kolbeinn Sigþórsson.
Vinstri kantmaður: Jóhann Berg Guðmundsson.
banner
banner
banner