
Með sigri á Fylki síðastliðna helgi tryggði Völsungur áframhaldandi veru sína í Lengjudeildinni. Völsungur eru nýliðar í deildinni og var spáð í neðsta sæti deildarinnar fyrir tímabilið. Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari liðsins, er að vonum ánægður með árangurinn.
„Ég ætla ekki að vera það hrokafullur að segja að það eigi ekki að spá Völsungi neðsta sæti þegar við komum upp í fyrstu deild í fyrsta sinn frá 2012,“ sagði Aðalsteinn í samtali við Fótbolti.net fyrr í dag.
„Það var eins með síðasta tímabil okkur var spáð 10. sæti minnir mig og við fórum upp. Það voru leikmenn í hópnum sem fíluðu í tætlur að vera „underdogs”. Það var vitað að við værum það komandi inn í þetta tímabil. Ef spárnar höfðu einhver áhrif þá voru þær bara bensín á bálið fyrir okkur til að afsanna þetta. “
Í spá Fótbolta.net fyrir mót, þar sem Völsungi var spáð á botni deildarinnar, kom þá meðal annars fram að Húsvíkingar væru að fara inn í mótið með lakara lið á pappír en inn í 2. deildina í fyrra.
Völsungur byrjaði mótið hægt, tapaði fyrstu tveimur leikjunum og mikilvægir leikmenn voru að komast í stand og byrjuðu á bekknum. Aðalsteinn viðurkennir að stressið hafi farið að láta á sér kræla eftir tapið í annarri umferð. „Eftir tapið gegn Njarðvík í annari umferð var maður orðinn aðeins stressaður. Síðan koma tveir leikir í röð þar sem við skorum sigurmörkin í uppbótartíma og það kemur okkur svolítið í gang.“
Hann segir liðið þá komið ákveðið til leiks í sumar með skýrt markmið. „Við vorum ekki að mæta á þetta svið og segja djöfull er flott að vera hérna. Við ætluðum að mæta með kassann úti og gera þetta almennilega. Við vorum ekkert að fara í frí í fyrstu deild.“
Aðalsteinn segir að velgengnin hafi kveikt aukna stemningu í kringum liðið og samfélagið á Húsavík. „Ég upplifi það. Að fara upp um deild á svona litlum stað gerir maður það mikið á stemningu og ástríðu. Áhuginn varð alltaf meiri og meiri. Miklu fleiri á vellinum, fleiri skilaboð og fleiri sem mæta á útileiki. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir það, þetta er svo mikilvægt. Í sumar hafa verið mun fleiri með en oft áður.“
Liðið tryggði sér áframhaldandi sæti í Lengjudeildinni með sigri á Fylki í síðustu umferð. Enn er þó einn leikur eftir hjá Völsungi, þegar liðið tekur á móti HK á Húsavík.„Ég hlakka til að taka einn leik í viðbót með þessum snillingum og enda þetta á heimavelli.“
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Þór | 21 | 13 | 3 | 5 | 49 - 30 | +19 | 42 |
2. Þróttur R. | 21 | 12 | 5 | 4 | 42 - 35 | +7 | 41 |
3. Njarðvík | 21 | 11 | 7 | 3 | 47 - 25 | +22 | 40 |
4. HK | 21 | 11 | 4 | 6 | 42 - 29 | +13 | 37 |
5. ÍR | 21 | 10 | 7 | 4 | 37 - 25 | +12 | 37 |
6. Keflavík | 21 | 10 | 4 | 7 | 49 - 38 | +11 | 34 |
7. Völsungur | 21 | 7 | 4 | 10 | 36 - 48 | -12 | 25 |
8. Grindavík | 21 | 6 | 3 | 12 | 38 - 58 | -20 | 21 |
9. Fylkir | 21 | 5 | 5 | 11 | 32 - 31 | +1 | 20 |
10. Leiknir R. | 21 | 5 | 5 | 11 | 22 - 39 | -17 | 20 |
11. Selfoss | 21 | 6 | 1 | 14 | 24 - 40 | -16 | 19 |
12. Fjölnir | 21 | 3 | 6 | 12 | 31 - 51 | -20 | 15 |
Athugasemdir