Miðjumaðurinn Angelo Stiller var orðaður við ýmis stórveldi í sumar eftir að hafa verið lykilmaður í liði Stuttgart á síðustu leiktíð.
Hann var meðal annars orðaður við Real Madrid og Manchester United en hann er þessa stundina staddur með þýska landsliðshópnum sem spilar heimaleik við Norður-Írland í kvöld.
„Ég er áhugasamur um að flytja til útlanda á einhverjum tímapunkti ferilsins. Mér fannst flott ákvörðun hjá Florian Wirtz að fara til Liverpool en ég veit ekki hvað ég mun gera. Það eina sem er ákveðið við ferilinn minn er að ég vil ljúka honum í Bandaríkjunum," sagði Stiller.
Stiller er uppalinn hjá FC Bayern en fékk aðeins að koma við sögu í þremur leikjum með aðalliðinu eftir að hafa verið byrjunarliðsmaður í varaliðinu.
Hann var seldur til Hoffenheim í janúar 2021 og varð í kjölfarið gífurlega mikilvægur hlekkur í U21 landsliði Þýskalands áður en hann tók skrefið upp í A-landsliðið.
Stiller er 24 ára gamall og hefur spilað fimm A-landsleiki.
Hann kom með beinum hætti að 15 mörkum í 47 leikjum með Stuttgart á síðustu leiktíð og er með þrjú ár eftir á samningi.
07.06.2025 13:00
Leikmaður Stuttgart of dýr fyrir Real Madrid
Athugasemdir