Guehi, Gomez, Konate, Botman, Mbappe, Salah, Onana og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 08. september 2025 11:00
Kári Snorrason
Kom óvænt til HK og skorað níu mörk: Hef bætt á mig tíu kílóum af vöðvum
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Þór Arnarsson kom inn af bekknum og skoraði þrjú mörk á tólf mínútum í 4-2 sigri HK á Þrótti síðastliðinn laugardag. Jóhann gekk til liðs við HK frá Þrótti Vogum fyrir tímabilið og hefur skorað níu mörk fyrir HK í Lengjudeildinni.

Lestu um leikinn: HK 5 -  2 Þróttur R.

„Maður bjóst kannski ekki við þremur mörkum á stuttum tíma. Sérstaklega ekki þegar maður var búinn að klúðra dauðafæri fyrir fyrsta markið. Það var líka ótrúlega mikilvægt fyrir liðið að drepa leikinn,“ sagði Jóhann í samtali við Fótbolti.net.

„Minn styrkleiki er hraðinn, það eru þessir fyrstu metrar. Þetta er svolítið það sem Hemmi vill þegar við vinnum boltann og við förum í gegn. Þessi þrjú mörk eru held ég nákvæmlega eins, koma þarna vinstra megin í gegnum vörnina.“

Jóhann gekk til liðs við HK skömmu fyrir tímabil frá Þrótti Vogum.

„Ég kem svo seint inn í þetta. Kem seint í mars og er búinn að missa af öllu undirbúningstímabilinu með HK. Ég var ekki að búast við miklu á fyrsta tímabili, en búinn að fá stærra hlutverk en ég hélt. Ég setti mér markmið fyrir tímabil að skora fleiri en tíu mörk. Þar sem ég var búinn að heyra í einhverjum hlaðvörpum að ég væri ekki tíu marka maður, það var olía á eldinn og ég reyni að sokka þá.“

Hann hefur myndað gott tvíeyki með Degi Orra Garðarssyni, sem skrifaði nýverið undir hjá Val og fer á Hlíðarenda eftir tímabil.

„Við erum báðir tveir góðir framherjar sem elskum að skora mörk. Eins og í leiknum gegn Þrótti fékk ég þetta svæði, ekki bara út af mér. Dagur var að vinna til baka, þetta er klárlega gott samstarf okkar á milli. Það sjást gæðin hjá okkur báðum, hann er markahæstur í liðinu og ég er þar á eftir. Ég ætla ekki að taka frá Tuma (Þorvarssyni) og Kalla (Karli Ágústi Karlssyni), þeir eru búnir að hjálpa okkur mjög mikið.“

Síðasta árið hefur Jóhann lagt áherslu á að byggja upp líkamlegan styrk.

„Það er ár síðan að ég fór að hörku inn í ræktina. Ég held að ég hef bætt á mig tíu kílóum af vöðvum, eða ég myndi segja vöðvum. Ég er búinn að vera í einkaþjálfun hjá Stefáni Bjarka Sturlusyni, sem var styrktarþjálfarinn okkar í Keflavík, í tvö-þrjú ár. Ég sagði við hann á miðju tímabili hjá Vogunum að ég vildi kjöta mig upp.“

„Maður kjötaðist upp á stuttum tíma og ég náði líka að viðhalda hraðanum. Það var mikilvægast að missa hann ekki eftir að hafa bætt svona miklum vöðvum á mig.“

„Þetta gefur mér fleiri vopn í búrið. Að geta haldið boltanum betur, ekki bara leita aftur fyrir og fengið trukka í sig án þess að vera kastað í burtu. Maður er sáttur að geta gert meira en að hlaupa bara eins og tittur.“


HK þarf stig gegn Völsungi á Húsavík í næstu umferð til að tryggja sér umspilssæti.
„Við ætlum að fara á Húsavík og vinna þennan leik. Að komast í umspilið er búið að vera markmiðið frá því að við vissum að við gátum ekki unnið deildina.“

Hvernig horfiru til umspilsins ef ykkur tekst að komast þangað?
„Við erum búnir að mæta þessum liðum áður, þá við vitum hvað við förum út í. Það er búið að vera hjá okkur í sumar að þetta snýst um hvað við viljum. Hvað við viljum gera og hvernig við mætum til leiks, við klárlega munum mæta með einhverja geðveiki inn í umspilið og viljum sýna að við eigum skilið að fara upp um deild.“
Athugasemdir
banner