Danska félagið Lyngby er enn og aftur í þjálfaraleit. Næsti þjálfari Lyngby verður sá fjórði sem félagið ræður eftir að Freyr Alexandersson lét af störfum í byrjun árs 2024. Liðið féll úr úrvalsdeildinni eftir að Freyr lét af störfum og er nú í fimmta sæti í B-deildinni.
Davíð Snorri Jónasson, mikill félagi Freys, var orðaður við starfið en hann tekur ekki við liðinu. Davíð er aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands.
Freyr og Davíð eru góðir vinir, stýrðu Leikni saman á sínum tíma og störfuðu saman hjá KSÍ.
Freyr var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum og var spurður út í þetta.
„Ég sagði þeim þegar ég hætti að ráða Íslending. Ég var með rétta manninn fyrir þá. Þeir hefðu betur gert það á þeim tíma," sagði Freyr.
„Það er búið að vera smá rót á þeim og vesen, en félagið er enn sterkt og með mikið af góðu fólki. Núna þurfa þeir að hitta á þjálfara sem getur verið þarna í einhvern tíma. Ég fylgist alltaf með þeim. Ertu með einhvern íslenskan þjálfara fyrir þá?" spurði Freyr.
„Ég get sent þér einhver nöfn," sagði Elvar Geir sem tók viðtalið.
Athugasemdir