Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   þri 14. júní 2011 19:58
Elvar Geir Magnússon
Umfjöllun: Íslensku strákarnir étnir af Svisslendingum
Elvar Geir Magnússon skrifar frá Álaborg
Kolbeinn Sigþórsson í skallaeinvígi.
Kolbeinn Sigþórsson í skallaeinvígi.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Ísland 0 - 2 Sviss
0-1 Fabian Frei ('1)
0-2 Innocent Emeghara ('40)

Íslenska U21-landsliðið var langt frá sínu besta í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Sviss. Í þokkabót voru mótherjarnir í miklu stuði og gerðu strákunum okkar mikinn óleik hvað eftir annað. Á endanum vann Sviss 2-0 sigur sem var eins sanngjarn og sigrar geta orðið í fótbolta.

Íslenska liðið hefur ollið vonbrigðum í fyrstu tveimur leikjum mótsins og spilar upp á stoltið í lokaleik sínum á mótinu... þó möguleikarnir séu til staðar tölfræðilega en sú von er afar veik. Stóra sviðið er kannski aðeins stærra en við héldum.

Fyrri hálfleikurinn var á köflum vandræðalegur. Mótherjarnir voru í miklu stuði og eina ógn Íslands kom úr langskotum. Fyrsta markið kom strax á fyrstu mínútu leiksins. Vörn Íslands réði engan veginn við sterkt lið Sviss.

Annað mark Sviss lá í loftinu allan hálfleikinn og kom á 40. mínútu. Staðan 2-0 í hálfleik en Haraldur Björnsson markvörður kom í veg fyrir að munurinn var ekki meiri.

Leikurinn jafnaðist mikið í seinni hálfleiknum þó sigur Svisslendinga hafi aldrei verið í hættu. Eitthvað hefur þar væntanlega spilað inn í að þeir hafi dregið úr sínum krafti og ákveðið að eyða ekki meira bensíni að óþörfu.

Ísland náði að koma boltanum í netið en það mark var dæmt af vegna rangstöðu. Varamennirnir sem komu inn í seinni hálfleikinn geta borið höfuðið hátt, komu inn með kraft og baráttu sem sárlega skorti í fyrri hálfleik.

Of margir leikmenn Íslands eru að leika langt undir getu en vonandi mun allt annað lið mæta til leiks í lokaleiknum gegn Danmörku og við fáum að sjá það lið sem spilaði svo fantavel í undankeppninni.

Maður leiksins: Haraldur Björnsson.



Ísland tapaði öðrum leik sínum á Evrópumóti U21 árs landsliða en leiknum var að ljúka í Álaborg. Sviss vann sinn annan sigur og er því að fara í undanúrslit en möguleikar Íslendinga eru mjög litlir eftir tap í fyrstu tveimur leikjunum. Leikurinn var í beinni textalýsingu á Fótbolta.net sem má sjá hér að neðan.


94. mín: Leiknum er lokið með 0-2 sigri Sviss.

93. mín: Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Íslands fær að líta gula spjaldið.

92. mín: Haraldur ver gott skot Khlaifa.

90. mín: Fjórði dómari gefur til kynna að 4 mínútum sé bætt við venjulegan leiktíma. Nassim Ben Khalifa fékk fyrir örstuttu að líta gula spjaldið.

90. mín: Allt að leysast upp í pirringi milli leikmanna liðanna. Íslendingar fengu færi í kjölfar hornspyrnu og Birkir Bjarnason reyndi að setja boltann í markið með hælnum en gekk ekki. Eggert Gunnþór Jónsson lá eftir ýtingar í teignum og sparkaði frá sér. Fyrirliðar liðanna voru kallaðir til að róa sinn mannskap.

Twitter - Rúnar Ingimarsson
Erum við að tala um verðfall eða verðhrun á ungum íslenskum knattspyrnumönnum ? #fotbolti ódýrt að kaupa íslenska #u21 eftir sýningarglugga

80.mín: Emeghara á hættulegan sprett eins og oft áður en Haraldur Björnsson ver skot hans vel.

75.mín: Það er rólegt yfir leiknum þessar mínúturnar og ekki útlit fyrir annað en að Svisslendingar sigli öruggum sigri í höfn.

66.mín: Mark dæmt af Íslendingum vegna rangstöðu! Kolbeinn Sigþórsson á skot í varnarmann og Birkir Bjarnason skýtur boltanum í kjölfarið áfram í átt að marki. Skotið var laust og Rúrik Gíslason var í rangstöðu þegar hann reyndi að binda endahnút á sóknina. Boltinn endaði í netinu en aðstoðardómarinn flaggaði.

60.mín: Birkir Bjarnason kemur inn á fyrir Bjarna Þór Viðarsson. Rúrik Gíslason tekur við fyrirliðabandinu.

56.mín: Gylfi Þór á fína fyrirgjöf á Kolbein Sigþórsson en Svisslendingar ná að bjarga á síðustu stundu.

52.mín: 1903 áhorfendur eru á vellinum í dag.

49.mín: Björn Bergmann og Kolbeinn Sigþórsson eru núna tveir í fremstu víglínu. Bjarni Þór og Rúrik eru á köntunum og Guðmundur og Gylfi á miðjunni.

46.mín: Síðari hálfleikur er hafinn. Björn Bergmann Sigurðarson kemur inn á fyrir Alfreð Finnbogason í liði Íslands.

45.mín: Búið er að flauta til hálfleiks. Staðan er 2-0 fyrir Svisslendingum og það er verðskuldað miðað við gang leiksins.

44.mín: Gylfi Þór Sigurðsson fær gula spjaldið fyrir klaufalegt brot.

40.mín: MAAAARRRKKKK!!! Svisslendingar komast í 2-0 og nú er ljóst að róðurinn verður afar þungur fyrir Íslendinga. Innocent Emeghara kemst í gegn og skorar með skoti sem hefur viðkomu í Haraldi markverði á leið í netið. Eggert Gunnþór Jónsson reyndi að bjarga á línu en var aðeins of seinn.

39.mín: Granit Xhaka fær gula spjaldið. Rúrik Gíslason var á harðaspretti upp kantinn þegar Xhaka tæklaði hann niður.

37.mín: Mario Gavranovic kemst í færi en Haraldur Björnsson ver vel.

33.mín: Það er að lifna yfir íslensku leikmönnunum. Bjarni Þór Viðarsson fékk færi eftir laglega sókn en varnarmaður komst fyrir skot hans. Rúrik Gíslason átti síðan skot af löngu færi sem Yann Sommer varði í horn. Íslensku stuðningsmennirnir eru einnig farnir að láta í sér heyra í stúkunni.

32.mín: Björn Bergmann, Birkir Bjarnason og Arnór Smárason eru allir byrjaðir að hita. Eyjólfur er mjög líflegur á hliðarlínunni og er greinilega alls ekki sáttur, hann virðist ekki geta beðið eftir að fara yfir málin í hálfleik með liðinu.

30.mín: Granit Xhaka á góðan sprett og hörkuskot en boltinn fer yfir markið.

26.mín: ,,Mér líður ískyggilega mikið eins og ég sé að horfa á A-landsliðið," sagði ónefndur íþróttafréttamaður í blaðamannastúkunni.

21.mín: ,,Strákar þið verðið að vera miklu grimmari, það vantar alla grimmd í þetta," hrópar Eyjólfur Sverrisson af bekknum. Íslenska liðið er ekki komið í einn einasta takt við þennan leik, varnarmennirnir óöruggir og við ráðum ekkert við vængmenn Sviss. Annað svissneskt mark virðist því miður liggja í loftinu.

20.mín: Innocent Emeghara kemst upp að endamörkum og á stórhættulega fyrirgjöf en Íslendingar bjarga í horn.

13.mín: Íslenska vörnin virkar ekki sannfærandi í byrjun og Svisslendingar stjórna ferðinni í leiknum.

12.mín: Bjarni Þór Viðarsson fær fyrsta gula spjald leiksins fyrir brot á vallarhelmingi Svisslendinga.

10.mín: Hinn magnaði Xherdan Shaqiri á hörkuskot sem Haraldur slær til hliðar. Shaqiri er sterkasti leikmaður Svisslendinga og Íslendingar verða að hafa betri gætur á honum.

6.mín: Kolbeinn Sigþórsson á fyrstu tilraun Íslendinga en hann á skot yfir markið af löngu færi.

1.mín: MAAAARRRRKKKK!!! Svisslendingar komast yfir strax á fyrstu mínútu. Fabian Frei fær sendingu inn fyrir og skorar með skoti á nærstöngina framhjá Haraldi Björnssyni. Skelfileg byrjun hjá Íslendingum.

1.mín: Leikurinn er hafinn.

15:54 Liðin eru að ganga út á völlinn. Styttist í þjóðsöngvana dínamísku.

15:47 ,,Þeir eru með mann í byrjunarliðinu sem heitir Granít, reynið að toppa það!" segir Snorri Sturluson.

15:45 Er byrjunarlið Íslands eins og þið mynduð hafa það? Endilega segið ykkar skoðun á Twitter #fótbolti

15:37 Við minnum fólk á að nota hashtagið #fótbolti ef það tjáir sig um leikinn á Twitter. Valdar færslur verða settar hér inn í textalýsinguna

15:36 Skúli Jón á sína aðdáendur í stúkunni og sungu þeir honum til heiðurs hérna áðan. Þurfa samt að sætta sig við að þeirra maður er á bekknum.

15:34 Sviss er með tvær breytingar á sínu liði frá sigrinum gegn Danmörku. Byrjunarlið þeirra er á þessa leið:

Yann Sommer (m)
Philippe Koch - Jonathan Rossini - Timm Klose - Gaetano Berardi
Fabian Frei - Fabian Lustenberger - Granit Xhaka
Xherdan Shaqiri - Innocent Emeghara
Mario Gavranovic

15:23 Það er fínt veður hérna í Álaborg. Hitinn 14 stig og skýjað á köflum.

15:20 Strákarnir eru að hita upp undir stjórn Tómasar Inga Tómassonar. Tómas flýgur svo heim til Íslands í nótt til að stýra liði HK gegn BÍ/Bolungarvík í 1. deildinni.

15:05 Leikurinn fer fram á Aalborg stadium sem er heimavöllur AaB. Dómarinn í dag kemur frá Króatíu.

15:03 Hér má sjá byrjunarlið Íslands. Guðmundur Kristjánsson kemur inn í liðið í stað Arons Einars sem er í banni. Ég sjálfur hafði nú spáð því að Eggert Gunnþór færi inn á miðjuna og Skúli Jón Friðgeirsson myndi taka hægri bakvörðinn.

Markvörður: Haraldur Björnsson.
Hægri bakvörður: Eggert Gunnþór Jónsson
Miðverðir: Jón Guðni Fjóluson og Hólmar Örn Eyjólfsson.
Vinstri bakvörður: Hjörtur Logi Valgarðsson.
Miðjumenn: Bjarni Þór Viðarsson (f) og Guðmundur Kristjánsson
Sóknartengiliður: Gylfi Þór Sigurðsson.
Hægri kantmaður: Rúrik GÍslason
Framherji: Kolbeinn Sigþórsson.
Vinstri kantmaður: Alfreð Finnbogason.

15:00 Góðan og margblessaðan daginn. Hér í Álaborg hefst leikur Íslands og Sviss í Evrópumóti U21-landsliða eftir klukkutíma. Gríðarlega mikilvægur leikur fyrir Ísland eftir tapið gegn Hvíta-Rússlandi. Sviss vann Danmörku í fyrsta leik.
banner
banner
banner