Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   lau 18. júní 2011 22:24
Elvar Geir Magnússon
Umfjöllun: Hársbreidd frá sæti í undanúrslitum
Elvar Geir Magnússon skrifar frá Álaborg
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Danmörk 1 - 3 Ísland
0-1 Kolbeinn Sigþórsson (58.)
0-2 Birkir Bjarnason (60.)
1-2 Bashkim Kadrii (81.)
1-3 Hjörtur Logi Valgarðsson (92.)

Ísland er úr leik á Evrópumóti U21 landsliða þrátt fyrir frábæra frammistöðu og stórglæsilegan sigur á Danmörku í kvöld. Danir eru einnig úr leik og því er það dapurt lið Hvíta-Rússlands sem fylgir Sviss í undanúrslitin.

4-1 sigur hefði dugað og líka 3-0 sigur. Grátlegt.

Loksins sýndi íslenska liðið sitt rétt andlit og eftir allt sem á undan er gengið geta strákarnir labbað stoltir frá borði.

Aron Einar Gunnarsson var mættur aftur í byrjunarliðið eftir að hafa afplánað leikbann í leiknum gegn Sviss en fyrirliðinn Bjarni Þór Viðarsson fékk refsingu fyrir dapra frammistöðu og var settur á bekkinn.

Fyrri hálfleikurinn var líflegur og fjörlegur og í raun ótrúlegt að ekkert mark hafi verið skorað. Markvörðurinn Mikkel Andersen varði á stórbrotinn hátt skalla frá Eggerti Gunnþóri, sýndi nánast ómannleg viðbrögð.

Stuttu seinna kom stórhættulegur kafli hjá Dönum þar sem Nicki Bille Nielsen fékk sannkallað dauðafæri en hitti ekki markið. Markalaust eftir 45 mínútur.

Seinni hálfleikurinn var æsilegur í meira lagi. Eftir rúmlega fimm mínútna leik eftir hlé fékk slakur serbneskur dómari leiksins, Milorad Maizic, nóg af athugasemdum Eyjólfs Sverrissonar og var Eyjólfur sendur upp í stúku.

Strákarnir á vellinum létu það ekkert á sig og voru loksins farnir að sýna það af hverju þeir voru mættir á þetta mót. Hjörtur Logi Valgarðsson átti frábært langskot sem Andersen í markinu náði að verja áður en kom að stundinni sem maður var farinn að óttast að myndi einfaldlega ekki koma. Ísland skoraði sitt fyrsta mark á mótinu.
Kolbeinn Sigþórsson skoraði á 58. mínútu eftir laglegan undirbúning Birkis Bjarnasonar.

Nú voru Danir komnir með bakið upp við vegg og ljóst að þeir þurftu nauðsynlega að skora. Ísland lét kné fylgja kviði og Birkir Bjarnason bætti við marki með glæsilegum skalla eftir frábæra fyrirgjöf Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Allt í einu var allt orðið galopið og leikurinn var hálfgerður borðtennisleikur á síðustu mínútunum. Urmull margskota, fullt af færum og mikið fjör. Fótboltaleikur eins og þeir svo sannarlega gerast bestir. Danir minnkuðu muninn á 81. mínútu og áfram hélt fjörið.

Í uppbótartíma náði Hjörtur Logi að skora hreint magnað mark úr langskoti með hægri fæti sem söng í slánni og inn.

Ótrúlega súrsætur fótboltaleikur þar sem leikmenn beggja liða lágu í grasinu eftir að flautað var til leiksloka.

Það er ekki annað hægt en að hrósa þessu liði eftir þennan leik og hvernig það steig upp eftir martraðabyrjun á mótinu. Haraldur Björnsson svaraði gagnrýnisröddum sem sögðu að markvarslan yrði veikleiki með því að sýna stjörnuframmistöðu og bókað mál að faxtækið á Hlíðarenda mun fá sendingu erlendis frá á næstu dögum.

Aron Einar sýndi á mótinu hversu magnaður fótboltamaður hann er og er bókað mál að hann getur valið úr flottum félögum eftir þetta mót.

Það sem svíður sárast eftir þetta mót er þessi fyrsti leikur gegn Hvíta-Rússlandi sem margt skemmdi.

Maður leiksins: Haraldur Björnsson.



93. mín: Leik lokið. Því miður dugaði þessi frábæri sigur ekki til en guð minn góður hvað þeir reyndu. Þetta er U21 árs liðið sem við þekkjum. Í það minnsta náðum við að eyðileggja fyrir Dönum. Það er örlítil sárabót.

91. mín: MAAAARK! Þvílíkt mark! Hjörtur Logi Valgarðsson með þvílíkt mark. Sólaði danska liðið og negldi boltanum með hægri í slánna og inn fyrir utan teig. Þvílíkur seinni hálfleikur.

87. mín: Leikurinn er mjög opinn og hraður. Draumurinn er þó að fjara út hjá okkar strákum þrátt fyrir hetjulega baráttu.

81. mín MARK! Danir minnka muninn í 2-1. Skora með skalla af fjærstönginni eftir góða sókn. Danir þurfa sárlega að skora annað mark til þess að komast áfram. Íslandi gæti auðveldlega verið 4-1 yfir samt. Svekkjandi.

79. mín: Önnur skipting Íslands: Birkir Bjarnason sem er búinn að vera frábær í leiknum er tekinn af velli og inn á kemur Arnór Smárason. Spes að taka Birki af velli.

75. mín: Ísland verður að skora allavega eitt mark í viðbót og vona að Sviss bæti við þriðja markinu gegn Hvít-Rússum. Það myndi tryggja Íslandi áfram. Sviss er þó búið að taka tvo af sínum bestu mönnum af velli. Shaqiri er þó ennþá inn á. Vonum að hann hjálpi okkur.

70. mín: Ég trúi þessu ekki! Kolbeinn sloppinn í gegn eftir sendingu Gylfa en Kolbeinn skýtur í stöngina, einn gegn markverði. Stuttu áður skoraði Kolbeinn úr erfiðara færi en var dæmdur rangstæður.

68. mín: Fyrsta skipting Íslands: Björn Bergmann kemur inn á en Rúrik Gíslason fer af velli.

67. mín: Danir í algjöru dauðafæri en varnarmaðurinn Zanka skaut framhjá af eins meters færi. Þarna munaði litlu.

Twitter: Kristján Atli Ragnarsson
Stekk inn í stöðunni 0-0 að breiða ofan á dótturina ... kem fram kortéri síðar og staðan orðin 2-0. WTF? ÁFRAM ÍSLAND!!!

61. mín: Danir með skot í slánna rétt eftir seinna mark Íslands. Nú verða þeir að sækja.

60. mín MAAAARK! OG ÍSLAND BÆTIR VIÐ MARKI! Gylfi Sigurðsson með frábæra fyrirgjöf á kollinn á Birki Bjarnasyni sem skorar með skalla. Draumurinn lifir!

58. mín MAAAARK! Fyrsta mark Íslands á EM er komið, takk fyrir. Það er Kolbeinn Sigþórsson sem skorar eftir laglega sendingu Birkis Bjarnasonar. Það verður allt vitlaust í stúkunni í Álaborg og enginn fagnar meira en Eyjólfur í stúkunni.

54. mín: Hjörtur Logi með viðstöðulaust skot af 35 metra færi sem markvörður Dana ver frábærlega í horn. Þetta hefði verið sleggja. Eyjólfur klappar í stúkunni.

52. mín: Eyjólfur Sverrisson er rekinn úr varamannaskýlinu og upp í stúku fyrir að mótmæla þegar brotið var á Birki Bjarnasyni en ekkert dæmt. Afskaplega sérstakt hjá dómurum leiksins. Þetta var á góðri íslensku algjör tittlingaskítur.

46. mín: Seinni hálfleikur er hafinn

45. mín: Serbenski dómarinn hefur flautað til hálfleiks og staðan er markalaus. Danirnir hafa verið öllu betri og fengið betri færi. Þó komst Eggert Gunnþór nálægt því að skora fyrsta mark Íslands á mótinu. Við auglýsum enn eftir fyrsta markinu og vonum að það komi í seinni hálfleik.

43. mín: Áttunda hornspyrna Dana staðreynd en sem betur fer nýta þeir sér hana ekki. Hjörtur Logi hefur átt í miklum vandræðum vinstra meginn en heimamenn fara mikið þar upp og skapa oftar en ekki hættu.

Twitter: Ásgeir Börkur Ásgeirsson
Hólmar, step up your game son.

32. mín: Danir búnir að vera í stórsókn síðustu mínútur og íslenska vörnin bjargað oft á síðustu stundu. Orrahríðinni lauk svo með dauðafæri Nickie Billie Jensen sem komst einn gegn Haraldi en skot hans fór sem betur fer rétt framhjá.

21. mín: Vá, hvað það munaði litlu! Eggert Gunnþór með skalla í einn Danann eftir aukaspyrnu Gylfa. Markvörður Dana varði aftur á móti stórkostlega en boltinn var á leiðinni inn.

18. mín: Birkir Bjarnason með hörkuskot framhjá marki Dana. Þetta hefði verið glæsilegt mark en boltinn nokkuð framjá.

17. mín: Danir hafa verið betri aðilinn fyrsta korterið. Það er lítið spil hjá íslenska liðinu og Danirnir vinna auðveldlega af okkur boltann.

Twitter: Kristinn Steindórsson
Jæja boys, einn sigur eg bið ekki um meira #EM #áframísland

7. mín: Stórstjarna Dana, Christian Eriksen, í dauðafæri við mark Íslands en Haraldur ver tvívegis glæsilega. Stórhættulegt hjá Dönum og íslenska vörnin lítur ekki alltof vel út.

5. mín: Netið er hrunið á vellinum í Álaborg þannig við tökum við hér heima. Helstu atriði leiksins verða færð inn um leið og þau gerast.

1. mín: Leikurinn er hafinn í Álaborg.

Twitter: Guðni Þ. Guðjónsson
ennþa enginn Skuli i byrjunarliðinu, Jolli hvað ertu að spa? #u21 #fotbolti

18:32 Menn eru misjafnlega bjartsýnir/svartsýnir fyrir þennan leik í kvöld meðal íslensku blaðamannana. Allir eru þó sammála um það að við þurfum að sjá íslenska liðið í sínum rétta gír og setja eins og eitt mark á þessu móti.

18:29 Hörður Snævar ljósmyndari okkar hefur skilað inn myndum af upphitun íslenska liðsins í rigningunni. Myndirnar má sjá hér til hliðar.

18:25 Þetta eru möguleikarnir fyrir leikinn:

Við þurfum að vinna Dani í lokaleik riðilsins með þriggja marka mun eða meira og treysta á að Sviss vinni Hvíta-Rússland, þá er íslenska liðið áfram. Ef Ísland vinnur þó með markatölunni 3-0 þarf Hvíta-Rússland að tapa með þriggja marka mun eða meira til að Ísland komist áfram.

Strákarnir hafa þó að meiru að keppa því þeir hafa ekki sýnt sitt rétt andlit í hinum tveimur leikjum riðilsins og vilja ljúka mótinu með sæmd og með því að skora. Einnig geta þeir þó skemmt möguleika heimamanna á sæti í undanúrslitum.

Danmörk má ekki tapa
Danmörk kemst áfram með sigri gegn Íslandi nema Hvíta-Rússland vinni Sviss með eins marks mun en þó ekki 1-0.

Ef Sviss tapar 2-1 þá þarf Danmörk að vinna stærra en 2-0. Ef leikurinn endar 2-0 og Sviss tapar 2-1 verður úrskurðað um annað sætið með háttvísistölum, það lið sem hefur fengið færri spjöld kemst áfram.

Ef leikur Íslands og Danmerkur endar með jafntefli fer Danmörk áfram nema Hvíta-Rússland vinni. Ef Danmörk tapar leiknum á liðið enga möguleika á áframhaldandi þátttöku.

18:24 Svona byrjar Danmörk: Mikkel Andersen (m), Mathias Zanka, Andreas Bjelland, Nicolai Boilesen, Daniel Wass, Mike Jensen, Nicolai Jörgensen, Christian Eriksen, Nicki Bille Nielsen, Kaspar Povlsen, Bashkim Kadrii.

18:22 Það var verið að kynna byrjunarlið Dana. Langmest fagnað þegar nafn Christian Eriksen var lesið upp enda skærasta stjarna liðsins.

18:21 Það rignir duglega hér í Álaborg. Ekta íslenskar aðstæður. Vonandi mun þetta nýtast íslenska liðinu.

Twitter: Hákon Atli Bjarkason
Líst vel á þetta lið, Halli, Eggert, Nonni, Hólmar, Hjörtur, Birkir, Aron, Gylfi, Rúrik, Jói, Kolli #ÁframÍsland #fotbolti #4-0! #VinnumDani

18:18 Treysti á að þið verðið dugleg á Twitter og notið hashtagið #fótbolti ef þið skrifið færslur um leikinn. Valdar færslur verða birta hér í textalýsingunni.

18:17 Netið er verulega leiðinlegt á vellinum og er að leika mann grátt. Það er vonandi að allt komist samt til skila.

17:54 Sæl og blessuð og velkomin í beina textalýsingu frá U21 landsleik Íslands og Danmerkur. Hér að neðan má sjá byrjunarlið Íslands.

Markvörður: Haraldur Björnsson

Hægri bakvörður: Eggert Gunnþór Jónsson

Miðverðir: Jón Guðni Fjóluson, Hólmar Örn Eyjólfsson

Vinstri bakvörður: Hjörtur Logi Valgarðsson

Miðjumenn: Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason

Hægri kantur: Rúrik Gíslason (F)

Vinstri kantur: Jóhann Berg Guðmundsson

Framherji: Kolbeinn Sigþórsson
banner
banner