mán 15. október 2012 08:47
Guðmundur Reynir Gunnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Skin og skúrir
Guðmundur Reynir Gunnarsson
Guðmundur Reynir Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tímabilið hjá KR í sumar einkenndist af hæðum og lægðum. Hápunktur tímabilsins var bikarmeistaratitillinn, annað árið í röð, en lokum tímabilsins getum við ekki verið stoltir af.

Töluvert var um breytingar á liðinu fyrir tímabilið. Atli, Geiri og Gunnar Örn héldu á önnur mið og Skúli og Gaui fóru út í atvinnumennsku. Í staðinn komu ungir öðlingar utan af landi en þetta voru þeir Þorsteinn Már, Atli Sig, Haukur Heiðar og Emil Atla. Ekki má gleyma veðurfréttamanninum Fjalari 5000 sem kom með nýjar víddir í fimmaurana í klefanum. Loks kom hinn mikli sjarmör, Rhys Weston, frá Skotlandi.

Undirbúningstímabilið fór hægt af stað en þegar tímabilið nálgaðist fóru hjólin að snúast og liðið að spila mun betur. Farið var í æfingaferð til Akureyrar þar sem hópnum var þjappað saman og Jesús birtist KR-ingum í allri sinni dýrð. Undirbúningstímabilið endaði gríðarlega vel þar sem deildarbikarinn kom í hús og við urðum „meistarar meistaranna”. Því fóru menn bjartsýnir inn í sumarið eftir langan og strangan vetur.

Fyrri hluti tímabilsins var mjög góður. Þá náðum við að safna mörgum stigum og spilamennskan góð á köflum. Það vakti athygli hvað KR-völlurinn var blautur miðað við mikla þurrkatíma en það var gert til að undirbúa Hannes markvörð fyrir vallaraðstæður í Albaníu. Einnig vöktu ungu nýliðarnir athygli fyrir góða spilamennsku og Kjarri var alveg þokkalega öruggur í vítum.

Þegar líða tók á sumarið urðu nokkrar fleiri breytingar á hópnum. Rhys hélt aftur til síns heima, Dofri og Egill fóru á lán og Skari hélt í atvinnumennsku. Í staðinn komu Jónas Guðni, sem við KR-ingar höfðum saknað, og Gary Martin. Sá síðarnefndi fékk loksins eitthvað að gera þegar Atli Sigurjónsson tók hann upp á sína arma. Þeir lentu í ýmsum raunum um allan bæ, m.a. á ljósabekkjastofum borgarinnar. Ef einhverjir eru áhugasamir um ævintýri þeirra þá var gerð Hollywood-mynd um þá félagana með Jim Carrey og Jeff Daniels í aðalhlutverkum.

Um mitt sumar var svo bikarúrslitaleikurinn. Eftir að hafa farið nánast erfiðustu mögulegu leið, og lagt 4 úrvalsdeildarlið að velli, mættum við Stjörnunni í úrslitaleik. Leikurinn var gríðarlega spennandi og fullur af áhugaverðum atvikum t.d. þegar vinstri bakvörður KR tókst að gefa Stjörnumönnum víti á óskiljanlegan hátt. En að lokum stóðum við uppi sem sigurvegarar enda með Bikar-Balla í okkar röðum. Þetta var mjög kærkominn sigur fyrir alla KR-inga en við ætluðum okkur meira á tímabilinu.

Seinni hluti Íslandsmótsins og Evrópukeppnin ollu okkur miklum vonbrigðum og allir vita að við getum spilað mun betur. Endalaust er hægt að velta sér upp úr hvað hafi farið úrskeiðis en svo fór sem fór og nú horfum við fram á veginn með þessa reynslu á bakinu.

Grétar var svo maður septembermánaðar. Hann hóf að æfa aukaspyrnur af miklum krafti og var búinn að ná ágætis tökum á þeim að mati undirritaðs. Eftir hverja æfingu náði hann í gervi-vegg og æfði sig. Eftir á að hyggja hefði kannski verið sniðugt að láta alvöru menn prófa að vera í veggnum, svona eins og kannski Steina og Viktor.

Æfingar Grétars skiluðu sér í því að hann fékk að taka aukaspyrnu, Bjarna aukaspyrnusérfræðingi til mikillar ánægju, en því miður fór boltinn í slána. Ógæfan hélt áfram að elta Grétar því þegar hann þurfti síðan að hitta slána í sláarkeppninni um „Viðbjóð ársins” kom allt fyrir ekki. Á lokahófinu var hann krýndur Viðbjóður ársins og þurfti að klæðast viðbjóðslegum jakka sem var einmitt saumaður af Grétari sjálfum. Karma hvað.

Að lokum vil ég þakka öllum KR-ingum fyrir sumarið og bið ykkur vel að lifa.
Athugasemdir
banner
banner
banner