fim 06. desember 2018 14:03
Elvar Geir Magnússon
Atli Eðvalds í áhugaverðu viðtali á RÚV í kvöld
Blakið nýttist honum í skallatækninni
Atli verður í viðtali á RÚV í kvöld.
Atli verður í viðtali á RÚV í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Eðvaldsson, fótboltaþjálfari og fyrrum landsliðsmaður, verður í ítarlegu viðtali í þættinum Íþróttafólkið okkar í kvöld klukkan 20:30 á RÚV.

RÚV hefur birt brot úr viðtalinu en þar segir hann sögu frá 1980 þegar hann var 23 ára gamall og fór út til æfinga hjá þýska stórliðinu Borussia Dortmund.

Á þeim tíma voru fótboltamenn á Íslandi ekki við æfingar yfir veturinn og Atli því í engu fótboltaformi. Hann hafði hinsvegar verið í blaki og var Íslandsmeistari í íþróttinni.

Udo Lattek var þjálfari Dortmund á þessum tíma og á æfingunni fékk Atli fyrirgjafir til að skalla.

„Þar kom ég sjálfum mér á óvart. Ég var búinn að vera tvö ár í blaki og var ekkert að fatta að þessi hreyfing að fara upp í boltann er bara blaktækni. Ég hamraði þetta allt saman á markið, skoraði tíu eða átta mörk. Svo fékk hann mann á móti mér og þá notaði ég þessa tækni að nota olnbogana til að búa til plássið og hann vann ekki bolta. Ég tók alla boltana og hann skallaði bara í olnbogana á mér í hvert einasta skipti," segir Atli.

Lattek var skiljanlega ánægður með frammistöðu Atla en átti bágt með að trúa að hann hefði ekki spilað fótbolta í átta mánuði.

„Hann spurði hvort ég væri ekki búinn að spila fótbolta síðan í september?
- Nei, sagði ég.
- Hvernig ertu þá þegar þú ert kominn í form?“


Atli samdi við Dortmund og lék með þeim veturinn 1980-1981. Hann spilaði 30 leiki og skoraði 11 mörk.


Athugasemdir
banner
banner
banner