fös 28. desember 2018 10:00
Magnús Már Einarsson
Brands: Grétar er eins og bolabítur
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marcel Brands, yfirmaður knattspyrnumála er hæstánægður með að hafa fengið Grétar Rafn Steinsson til starfa hjá félaginu. Grétar var á dögunum ráðinn yfirnjósnari Everton í Evrópu en hann hefur undanfarin ár starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood.

Samkvæmt frétt Liverpool Echo er Grétar yfirmaður yfir sex njósnurum Everton víðsvegar í heiminum en þeir reyna að finna öfluga leikmenn fyrir félagið í framtíðinni.

„Hann er eins og bolabítur. Ef hann sér eitthvað sem hann vill þá reynir hann að ná í það. Það er svolítið eins og minn karakter," sagði Brands.

„Ég vil hafa svona fólk í kringum mig því í fortíðinni hef ég náð mörgum félagaskiptum í gegn eftir að fólk hefur sagt: ´Þetta er ómögulegt'. Fólk bjóst ekki við því núna að við myndum fá leikmenn frá Barcelona."

„Ég vil hafa fólk í kringum mig sem hefur trú á svona hlutum. Þetta gengur ekki alltaf upp hjá okkur en ef þú reynir ekki þá gengur aldrei neitt hjá þér. Grétar er góður náungi, maður fólksins og liðsmaður. Hann er ekki með of stórt egó og hann vill vinna með öðru fólki."

„Hann hóf störf fyrir tveimur vikum og hann hefur nú þegar hitt þrjá af njósnurum okkar erlendis á ferðalögum śínum. Ég kann að meta það."


Brands fékk Grétar sem leikmann til AZ Alkmaar á sínum tíma og þeir hafa haldið sambandi síðan þá. Brands hitti Grétar á yngri flokka leik í vetur og ákvað eftir spjall þar að reyna að fá hann til starfa hjá Everton.

„Hann vildi ólmur hefja störf. Ég hafði hugsað mér að hann myndi byrja 1. janúar en hann vildi byrja strax og ég kunni vel við það," sagði Brands.

Sjá einnig:
Grétar Rafn Steinsson í Miðjunni (16. október)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner