Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 14. ágúst 2019 14:17
Magnús Már Einarsson
Hver er Valli Reynis?
Valli Reynis í leik með Selfyssingum árið 2001.
Valli Reynis í leik með Selfyssingum árið 2001.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Valli á sprettinum í leik með Árborg gegn Reyni Sandgerði árð 2005.
Valli á sprettinum í leik með Árborg gegn Reyni Sandgerði árð 2005.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Valli Reynis, fór aldrei inn í reitinn!
Valli Reynis, fór aldrei inn í reitinn!
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Bræðurnir Gummi og Ingó Tóta frumfluttu lagið um Valla Reynis á jólatónleikum í fyrra.  Lagið hefur slegið í gegn undanfarnar vikur.
Bræðurnir Gummi og Ingó Tóta frumfluttu lagið um Valla Reynis á jólatónleikum í fyrra. Lagið hefur slegið í gegn undanfarnar vikur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er ein stærsta spurningin í dag. Hver er þessi Valli Reynis?" sagði Gunnar Valgeir Reynisson, Valli Reynis, við Fótbolta.net í dag.

Bræðurnir Ingólfur og Guðmundur Þórarinssynir hafa í sumar slegið í gegn með lagi um Valla Reynis en lagið var meðal annars tekið í brekkusöngnum á Þjóðhátíð á dögunum. En hvernig stendur á því að þetta vinsæla lag fjalli um fyrrum leikmann Selfoss og Árborgar sem er löngu búinn að leggja skóna á hilluna?

„Ég og Þórarinn Ingólfsson, pabbi Ingó, spiluðum saman fótbolta í tíu ár," sagði Valli þegar Fótbolti.net náði tali af honum í dag en hann er staddur í sumarfríi á Spáni.



Hinn 47 ára gamli Valli spilaði lengst af á ferli sínum með Selfossi en í texta lagsins eru margar skemmtilegar tilvísanir í fótboltaferil hans. „Þetta eru nánast allt sannar sögur í textanum," sagði Valli hress.

Unglingalandsleikir og leikmaður ársins
Valli spilaði sem sóknar, kant og miðjumaður á ferlinum en hann þótti mikið á efni á sínum tíma.

„Ég var í drengja og unglingalandsliðinu með Arnari og Bjarka (Gunnlaugssonum), Adda Grétars og fullt af strákum. Ég náði að spila landsleiki og ég held að ég sé fyrsti Selfyssingurinn sem spilar landsleik," sagði Valli en hann var öflugur í liði Selfyssinga á ferli sínum.

„Ég var markakóngur og leikmaður ársins í einhver skipti svo mér gekk mjög vel. Ég var samt aðallega í þessu upp á félagsskapinn. Maður hafði engar tekjur af þessu. Maður fékk bara tösku og takkaskó frítt. Þetta var bara áhugamál," sagði Valli en Selfyssingar gerðu ekki miklar rósir í fótboltanum á þeim árum sem hann spilaði með liðinu.

„Við vorum alltaf í 2 og 3. deild. Þetta var meira hobbí heldur en annað. Það náðist aldrei neinn árangur í meistaraflokki í fótbolta á þessum tíma," bætti Valli við en meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum seint á ferlinum.

„Ég var 32 ára þegar ég þurfti að hætta að spila með Selfossi. Þá braut ég bein á milli þriðja og fjórða hryggjaliðar og var í tvö ár að jafna mig. Þetta var eins og versta brjósklos. Ég var hjá kírópraktor í tvö ár að laga þetta því þeir vildu ekki gera aðgerð. Það var erfitt að byrja aftur á fullu í fótboltanum eftir það en ég fór í Árborg og spilaði nokkra leiki með þeim," bætti Valli við en síðustu leikir hans voru með Árborg árið 2006.

Vissi ekkert fyrir frumflutning á laginu
Ingó og Gummi komu í stórskemmtilegt spjall í Miðjuna á Fótbolta.net í fyrra þar sem þeir sögðu frá því að lag um Valla væri væntanlegt. Ingó var þar að ræða um vinsældir lagsins „Suðurlandsins eina von" sem fjallar um Arilíus Marteinsson, fyrrum leikmann Selfoss og núverandi leikmann Stokkseyri.

„Ég á 4-5 lög í viðbót um Selfoss kempur sem nánast enginn veit hverjir eru nema hardcore Selfyssingar," sagði Ingó. í Miðjunni í nóvember í fyrra. „Það er eitt um Valla Reynis sem allir á Selfossi ættu að kannast við. Það er annað sem heitir 'Velkomnir í dýragarðinn' um Einar Ottó, Jón Guðbrandsson og fleiri af eldri kynslóðinni sem voru þekktir fyrir að strauja menn alveg kexruglaðir."

Mánuði eftir viðtalið í Miðjunni var lagið um Valla Reynis síðan frumflutt þegar Ingó og Gummi Tóta héldu jólatónleika á Selfossi. Það kom Valla gjörsamlega í opna skjöldu þegar lagið var tekið á tónleikunum.

„Þetta var frumflutt á jólatónleikum á Selfossi 22. desember og það er ótrúlegt hvað það hefur farið á flug. Ég átti ekki einu sinni miða á tónleikana og vissi ekki af því að hann ætlaði að spila þetta lag. Ingó gaf mér miða á tónleikana og svo var ég kallaður upp á svið í lok lagsins. Það var mjög gaman þegar 500 manns héldu áfram að syngja lagið í lokin."

Myndband af laginu kom á YouTube í sumar og vinsældir þess hafa verið mklar síðan þá. „Maður er alltaf að fá sent snöpp og eitthvað á messenger af þessu. Maður fær sent frá Spáni, Danmörku og alls staðar af. Það er ótrúlega gaman að þessu."

Eyðir ekki heilum helgum í enska boltann
Valli er pípulagningameistari og er með eigið fyrirtæki. Hann stefnir síðan á að fara yfir í byggingastjórnun í framtíðinni. Eftir að takkaskórnir fóru upp á hillu hefur Valli haldið áfram að styðja sín lið í boltanum.

„Ég fer á karla og kvennaleikina hjá Selfossi á heimavelli. Stelpurnar eru að fara að spila við KR í bikarúrslitum á laugardaginn og ég gæti náð þeim leik því ég kem heim aðfaranótt föstudags," sagði Valli sem fylgist minna með boltanum erlendis. „Ég hafði alltaf mjög gaman að því að spila fótbolta en ekki endilega að því að horfa á hann. Ég var ekki að eyða heilum helgum í að hanga yfir enskum bolta eins og strákarnir," sagði Valli að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Ingó ræðir um Suðurlandsins eina von - Arilíus orðinn stjarna (Nóvember 2018)

Hér að neðan má hlusta á lögin um Valla Reynis og Arilíus Marteinsson.



Athugasemdir
banner
banner
banner