fös 09. maí 2008 09:30
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 1.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fyrsta sætinu í þessari spá var Víkingur Reykjavík sem fékk 228 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Víking.

.
1.sæti Víkingur R.
Búningar: Rauð og svört treyja, svartar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.vikingur.is og http://www.vikingur.net

Það kemur ekki mjög á óvart að Víkingum sé spáð sigri í 1. deildinni í sumar. Liðið féll úr Landsbankadeildinni í fyrra og þrátt fyrir að umtalsverðar breytingar hafa orðið á því er það vel mannað og sigurstranglegt. Frammistaðan á undirbúningstímabilinu hefur þó ollið mörgum Víkingum vonbrigðum en hún hefur verið sveiflukennd svo vægt sé til orða tekið.

Nú er hundrað ára afmælisár Víkings og eiga Víkingar þá ósk heitasta að liðið nái að vinna sér inn sæti í Landsbankadeildinni og síðan í framhaldinu ná loksins að festa niður rótum þar. Daninn Jesper Tollefsen fær það hlutverk að sigla skútunni þangað en hann náði frábærum árangri með Leikni Breiðholti á síðasta tímabili.

Jesper er virkilega skipulagður þjálfari sem leggur mikið upp úr varnarleiknum. Það er ljóst að mikill agi er innan herbúða Víkings og leikmenn komast ekki upp með neitt hálfkák. Það má ekki búast við markaregni í leikjum Víkings í sumar og ljóst að hraði leikmanna eins og Egils Atlasonar og Gunnars Kristjánssonar munu spila stórt hlutverk í sóknarleiknum. Þórhallur Hinriksson er kominn frá Þrótti og ef hann kemur sér í form reynist hann mjög mikill styrkur.

Í liði Víkings má finna nokkra ansi sterka leikmenn en sá sem mestar vonir eru bundnar við er Sinisa Kekic. Miðað við frammistöðu hans í Landsbankadeildinni ætti þessi ótrúlega skemmtilegi og þaulreyndi leikmaður að reynast ansi öflugur í 1. deildinni sama hvar á vellinum hann spilar. Víkingar hafa góðan markvörð og eru með öfluga vörn. Liðið er líkamlega sterkt. Í sóknarleiknum er ljóst að mótherjinn þarf að hafa góðar gætur á Gunnari Kristjánssyni enda býr hann yfir hraða sem er illviðráðanlegur.

Liðið hefur fengið nokkra nýja leikmenn, þar á meðal Jimmy Hoyer frá Danmörku og verður spennandi að sjá hvernig hann stendur sig. Eins og gengur og gerist með lið sem falla þá hafa Víkingar misst nokkra lykilmenn. Varnarmennirnir Höskuldur Eiríksson og Grétar Sigfinnur fóru í Landsbankadeildarlið og Jökull Elísabetarson til Bandaríkjanna. Einn stærsti missirinn var í Arnari Jóni Sigurgeirssyni sem er hættur en Arnar er frábær fótboltamaður og kannski einmitt sú týpa af leikmanni sem Víkingum vantar helst í dag.

Styrkleikar: Það verður erfitt að skora gegn Víkingi enda er Jesper Tollefsen virkilega varnarsinnaður þjálfari og nær allir leikmenn hafa varnarskyldum að gegna. Liðið er mjög skipulagt, líkamlega sterkt, hefur sterkan markvörð og varnarmenn í úrvalsdeildarklassa. Skyndisóknir Víkings eru stórhættulegar. Liðið hefur Sinisa Kekic innanborðs en hann hefur verið einn besti leikmaður íslenska boltans í mörg ár.

Veikleikar: Breiddin mætti vera meiri en Víkingar hafa frekar þunnskipaðan hóp. Liðið hefur engan alvöru markaskorara innan sinna raða og mætti alveg við því að fá meiri kraft fram á við. Liðið hefur líkamlega sterka leikmenn og nokkra mjög hraða en vantar kannski fleiri leikmenn sem eru mjög vel spilandi.

Þjálfari: Jesper Tollefsen. Tók við liðinu af Magnúsi Gylfasyni sem hætti eftir fallið úr úrvalsdeildinni. Jesper er einn menntaðasti þjálfari landsins enda með UEFA Pro þjálfaragráðu. Hann var yfirþjálfari unglingastarfs AGF og einnig aðstoðarþjálfari hjá aðalliði félagsins. Hann kom til landsins um mitt tímabil í fyrra og tók við Leikni sem var í bullandi fallbaráttu í 1. deildinni. Hann náði að rétta skútuna við og stýrði Leikni í sjötta sætið sem er besti árangur sem liðið hefur náð.

Lykilmenn: Milos Glogovac, Sinisa Kekic og Gunnar Kristjánsson.

Komnir: Brynjar Orri Bjarnason frá KR, Jimmy Hoyer frá AGF í Danmörku, Christopher Vorenkamp frá Svíþjóð, Þórhallur Hinriksson frá Þrótti, Runólfur Sigmundsson úr Fylki.

Farnir: Höskuldur Eiríksson í FH, Grétar Sigfinnur Sigurðarson í KR, Jökull Elísabetarson til Bandaríkjanna, Arnar Jón Sigurgeirsson hættur, Kári Einarsson í Leikni R., Hermann Albertsson í Dalvík/Reyni, Björn Viðar Ásbjörnsson í ÍR, Dragan Galic til Serbíu, Viðar Guðjónsson í Fylki.

Spá fyrirliða og þjálfara:


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. Víkingur R. 228
2. ÍBV 221 stig
3. Stjarnan 198 stig
4. Fjarðabyggð 171 stig
5. Haukar 123 stig
6. Selfoss 119 stig
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner