Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   lau 27. september 2008 19:01
Gísli Þórarinsson
Umfjöllun: Titillinn rann úr greipum Keflvíkinga
Keflvíkingar voru svekktir eftir leikinn í dag.
Keflvíkingar voru svekktir eftir leikinn í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Hannes Þór Halldórsson handsamar knöttinn.
Hannes Þór Halldórsson handsamar knöttinn.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Reynir Leósson á sprettinum.
Reynir Leósson á sprettinum.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Joseph Tillen með boltann á vinstri kantinum.
Joseph Tillen með boltann á vinstri kantinum.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Keflvíkingar fagna marki Símun Samuelsen.
Keflvíkingar fagna marki Símun Samuelsen.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Framarar fagna sigrinum.
Framarar fagna sigrinum.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Keflavík 1 - 2 Fram
1-0 Símun Samuelsen ('55)
1-1 Almarr Ormarsson ('67)
1-2 Hjálmar Þórarinsson ('80)

Mikilvægasti leikur Keflavíkur í 35 ár var háður í dag þegar Framarar mættu í heimsókn. Bæði lið höfðu að miklu að keppa, heimamenn með aðra höndina á Íslandsmeistaratitlinum á meðan að Framarar voru í harðri baráttu um evrópusæti.
Aðstæður voru skaplegar fyrir leik, þó svo að það hafi komið smá skúrir og gola þá létu áhorfendur það ekki aftra sér frá því að fjölmenna á þennan stærsta og mikilvægasta leik sumarsins.

Fyrsta færið kom á 4.mínútu þegar Framarar geystust upp í sókn, há sending kom frá miðjusvæðinu upp hægra megin í vítateig þar sem Ívar Björnsson var mættur, Ívar skallaði fyrir á Joseph Tillen sem átti gott skot en Ómar Jóhannsson varði vel í horn.

Á 9. mínútu fengu Framarar hornspyrnu sem Paul McShane tók, boltinn barst á nærstöng þar sem Guðjón Árni náði að hreinsa fram völlinn á Auðunn Helgason sem sendi boltann inn í teig þar sem Reynir Leósson var aleinn en Ómar markvörður Keflvíkinga kom út á móti og aukaspyrna var dæmd á Reyni Leósson sem fór í Ómar.

Keflvíkingar ógnuðu svo marki gestanna á 11.mínútu þegar Jóhann Birnir lék sig skemmtilega upp vinstri kantinn og komst inn í teig, Jóhann sendi boltann fyrir en Patrik Redo var aðeins of seinn og boltinn rúllaði framhjá honum og á hægri kantinn þar sem Hólmar Örn var mættur, Hólmar spilaði boltanum inn á Guðjón Árna sem komst inn í teig en sending hans fyrir fór í varnarmann og í hornspyrnu. Guðmundur Steinarsson tók hornspyrnuna sem fór yfir þvöguna og út á vinstri kant þar sem Símun náði boltanum, Símun sendi fyrir en varnarmenn Framara náðu að hreinsa boltann yfir á hægri kant þar sem Guðmundur Steinarsson reyndi skot en boltinn framhjá.

Keflvíkingar fengu aukaspyrnu á stórhættulegum stað þegar brotið var á Patrik Redo fyrir utan teig en aukaspyrna Guðmundar Steinarsson var örugglega gripin af Hannesi Þór Halldórssyni í marki Framarana.

Keflvíkingar voru grimmari þegar leið á leikinn en það vantaði þó herslmuninn þegar að kom að því að klára færin. Framarar lágu hinsvegar tilbaka og treystu á skyndisóknir sem heimamenn réðu þó ágætlega við.

Á 32. mínútu sofnuðu heimamenn á verðinum, Hólmar reyndi skot sem fór í varnarmann og Framarar geystust upp völlinn hægra megin, boltinn fór inn í teig á Hjálmar Þórarinsson sem var einn og óvaldaður en vallaraðstæður gerðu það að verkum að honum skrikaði fótur og varnarmenn Keflavíkur náðu að hreinsa boltanum út fyrir teig, Framarar unnu boltann sem barst hægra megin í teig heimamanna en fyrirgjöfin fór yfir markið.

Eftir mikið klafs á miðsvæðinu barst boltinn að öftustu varnarlínu Framara á Auðunn Helgason sem reyndi að hreinsa boltann fram en Jóhann B. Guðmundsson var fyrir boltanum sem barst á Guðmund Steinarsson. Guðmundur sendi á Jóhann aftur sem reyndi skot en skot hans hátt yfir.

Hólmar Örn Rúnarsson var svo óheppinn að setja ekki fyrsta mark leiksins á 38. mínútu eftir spil við Guðmund Steinarsson. Hólmar reyndi skot við vítateig en boltinn strauk nærstöngina og fór framhjá.

Jóhannes Valgeirsson bætti við 30.sekúndum þegar að hann flautaði til hálfleiks. Keflvíkingar voru mun ógnandi og voru óheppnir að ná ekki að setja mark en að sama skapi voru skyndisóknir Framara hættulegar á blautum vellinum.

Keflvíkingar skoruðu á 54.mínútu eftir að Guðmundur Steinarsson gaf boltann fyrir, Hannes markvörður Framara missti boltann og eftirleikurinn auðveldur fyrir Símun Samuelsen sem spyrnti knettinum í autt markið. Staðan vænleg fyrir heimamenn og Íslandsmeistara titillinn þeirra eins og núverandi staða var.

Guðjón Árni Antoníusson skaust upp hægri kantinn að endamörkum kom boltanum fyrir á nærstöng þar sem Patrik Redo var mættur, Redo lagði boltann á Guðmund Steinarsson sem fipaðist á blautum vellinum og missti boltann frá sér en gerði vel í að spyrna boltann á Símun sem var einn vinstra megin í teignum, Símun reyndi skot sem fór í Hannes markvörð Framara og út vinstra megin í markteig, Símun reyndi að pota í boltann á sama tíma og Hannes reyndi að ná höndum á knettinum en uppskar gult spjald fyrir vikið frá Jóhannesi Valgeirssyni dómara leiksins.

Framarar jöfnuðu leikinn á 68.mínútu þegar Almar Ormarsson fékk stungusendingu frá Paul McShane inn fyrir vörn Keflavíkur. Almar lagði boltann snyrtilega framhjá Ómari stöngina inn. Keflavíkurvörnin svaf illa á verðinum og Framarar nýttu sér það.

Á 71. mínútu fengu Keflvíkingar góða sókn þegar Jóhann Birnir sendi knöttinn inn í teig vinstra megin á Símun sem skallaði boltann fyrir markið en Reynir Leósson náði að hreinsa í horn.

Eins og staðan var á 77.mínútu þá eru Keflvíkingar Íslandsmeistarar þar sem FH-ingar eru einu marki yfir gegn Fylki í Árbænum en Keflvíkingar hafa betri markatölu.

Framarar skoruðu á 79.mínútu þegar Paul McShane skaust upp völlinn þar sem 3 Framarar sóttu á 2 varnarmenn Keflvíkinga. Paul sendi boltann út á Hjálmar Þórarinsson á hægri kantinn sem lyfti boltanum snyrtilega yfir Ómar í markinu og kom Frömmurum í 1 – 2. Á sama tíma skoruðu FH-ingar mark, komust í 0 – 2 og Íslandsmeistaratitillinn á leiðinni í Hafnarfjörðinn og að sama skapi eru Framarar komnir í Evrópusæti.

Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en vallaraðstæður voru ekki til þess fallnar gera þeim auðveldara fyrir og þeim nægði ekki að jafna heldur urðu að vinna miðað við úrslitin í Árbænum.

Jóhannes Valgeirsson flautaði svo leikinn af á 93.mínútu og FH –ingar eru Íslandsmeistarar árið 2008 eftir harða keppni við FH-inga. Keflvíkingar geta þó vel við unað við árángur sinn þó svo að úrslitin hafi ekki fallið þeim í hag í dag. Framarar fögnuðu vel með sínum áhorfendum enda liðið komið í Evrópukeppni í fyrsta skipti eftir 17. ár.

Lið Keflavíkur; Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Kenneth Gustafsson, Guðmundur Steinarsson, Símun Eiler Samuelsen, Jóhann B. Guðmundsson (Þórarinn Kristjánsson) Brynjar Guðmundsson, Patrik Redo (Hörður Sveinsson) Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Rúnarsson, Hans Yoo Mathiesen (Magnús Þorsteinsson).
Ónotaðir varamenn; Jón Gunnar Eysteinsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Matthíasson, Magnús Þormar.

Lið Fram; Hannes Þór Halldórsson, Ingvar Ólafsson, Paul McShane, Auðunn Helgason, Reynir Leósson, Daði Guðmundsson, Samuel Lee Tillen, Hjálmar Þórarinsson (Örn Kató Hauksson), Halldór Jónsson, Joseph Tillen (Almar Ormarsson) , Ívar Björnsson.
Ónotaðir varamenn; Viðar Guðjónsson, Jónas Guðni Fjóluson, Jón Orri Ólafsson, Ögmundur Kristinsson.

Áhorfendur: 3875 áhorfendur á vellinum.
Dómari: Jóhannes Valgeirsson
Maður leiksins; Hans Yoo Mathiesen Keflavík. Hans barðist vel allan tímann á vellinum og spilaði boltanum vel frá sér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner