Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
   fim 01. júní 2023 21:26
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Sveiflukennt í sex marka jafntefli í Árbæ
Fylkir og KR gerðu sex marka jafntefli í Árbæ
Fylkir og KR gerðu sex marka jafntefli í Árbæ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir 3 - 3 KR
1-0 Þórður Gunnar Hafþórsson ('8 )
1-1 Jóhannes Kristinn Bjarnason ('12 )
1-2 Theodór Elmar Bjarnason ('19 )
2-2 Nikulás Val Gunnarsson ('45 )
3-2 Benedikt Daríus Garðarsson ('64 )
3-3 Theodór Elmar Bjarnason ('71 )
Lestu um leikinn

Fylkir og KR gerðu 3-3 jafntefli í 10. umferð Bestu deildar karla á Würth-vellinum í Árbæ í kvöld.

Heimamenn misstu lykilmann af velli á 7. mínútu er Emil Ásmundsson og Finnur Tómas Pálmason lentu í harkalegrum árekstri í byrjun leiks. Báðir héldu áfram en Emil þurfti að fara af velli nokkrum mínútum síðar.

Stuttu eftir skiptinguna komust Fylkismenn í forystu. Jakob Franz Pálsson gerði slæm mistök í vörninni sem varð til þess að Pétur Bjarnason var kominn í gegn. Hann vippaði boltanum yfir Aron í markinu en boltinn í slá og svo mætti Þórður Gunnar Hafþórsson til að koma boltanum í netið.

KR-ingar svöruðu nokkrum mínútum síðar. Jóhannes Kristinn Bjarnason skoraði þá eftir laglega skyndisókn. Finnur Tómas fann Elmar, sem lagði boltann á Ægi Jarl og átti hann laglega sendingu fyrir markið á Jóhannes sem tók hann í fyrsta og skoraði.

Theodór Elmar Bjarnason kom KR-ingum í forystu á 19. mínútu leiksins. Atli Sigurjónsson kom boltanum á Elmar eftir innkast og rann Orri Sveinn Stefánsson á vellinum er hann reyndi að verjast honum. Elmar kláraði svo færið vel.

Atli Sigurjónsson var nálægt því að bæta við þriðja markinu er hann reyndi skot frá miðju. Ólafur Kristófer var framarlega í marki Fylkis en var afar létt þegar hann sá boltann fara framhjá markinu.

Fylkismenn fóru í stórsókn í kjölfarið. Benedikt Daríus átti skot sem Aron varði og svo var Óskar nálægt því að komast í dauðafæri en Aron Þórður bjargaði á síðustu stundu.

Jöfnunarmarkið kom á endanum. Undir lok fyrri hálfleiks var það Nikulás Val Gunnarsson sem skoraði eftir hornspyrnu. Aron var í basli í markinu og náði Pétur að skalla boltanum að marki. Mikil barátta var við marklínuna og var það síðan Nikulás sem kláraði færið.

Fylkismenn komu sterkari inn í síðari hálfleikinn og voru alltaf líklegri. Það skilaði sér á 64. mínútu er Benedikt Daríus skoraði en fyrirgjöf Óskars fór af Jakobi og fyrir lappirnar á Benedikt sem kom Fylki í 3-2.

Sjö mínútum síðar jöfnuðu KR-ingar og var það heldur sérstakt mark. Kennie Chopart komst í færi eftir mistök frá Nikulási og Arnóri. Axel Máni náði að hreinsa eftir skot Kennie en beint í andlitið á Elmari og í netið.

KR-ingar voru líklegri eftir jöfnunarmarkið en sigurmarkið kom ekki og lokatölur 3-3. Fylkir er áfram í 7. sæti með 11 stig og KR sæti neðar með jafn mörg stig.
Athugasemdir
banner