Hvað gerir Guardiola? - Laporta vill Haaland - Man Utd fylgist með Eze - Pogba hafnar rússnesku félagi
banner
   þri 01. október 2024 16:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Verð mjög hissa ef þessir leikmenn vilja fara eitthvert annað"
Magnús stýrði uppeldisfélaginu
Magnús stýrði uppeldisfélaginu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson.
Fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull átti stóran þátt í frábærum endaspretti Aftureldingar á tímabilinu.
Jökull átti stóran þátt í frábærum endaspretti Aftureldingar á tímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding í Bestu deildina.
Afturelding í Bestu deildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rauða hafið í stúkunni fyrir aftan.
Rauða hafið í stúkunni fyrir aftan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Allir leikmenn í hópnum hafa staðið sig frábærlega í sumar og eiga saman þátt i þessum árangri'
'Allir leikmenn í hópnum hafa staðið sig frábærlega í sumar og eiga saman þátt i þessum árangri'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Stuðningurinn á laugardaginn var gríðarlegur og maður er þakklátur fyrir það'
'Stuðningurinn á laugardaginn var gríðarlegur og maður er þakklátur fyrir það'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding tryggði sér á laugardaginn sæti í Bestu deildinni, efstu deild, í fyrsta sinn í sögunni. Afturelding lagði Keflavík í úrslitaleik umspilsins í Lengjudeildinni.

Tíu leikmenn sem voru í hlutverki í sumar eru að renna út á samningi og var Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, spurður út í stöðu mála.

„Ég held það sé enginn sem verður pottþétt ekki áfram. Okkar vilji er að halda hópnum saman og það er alveg ljóst að við munum fá einhverjar styrkingar. Það var lítið um meiðsli hjá okkur í sumar og við náðum að keyra þetta mikið á svipuðum hóp, en það er ljóst að við þurfum stærri og sterkari hóp fyrir Bestu deildina. Það eru fleiri leikir, lengra tímabil, styttra á milli leikja o.s.frv.. Við þurfum klárlega að bæta við okkur, en fyrst og fremst þurfum við að byrja á því að halda hópnum saman, vonandi tekst það, og taka þetta svo þaðan. Allir leikmenn í hópnum hafa staðið sig frábærlega í sumar og eiga saman þátt i þessum árangri," segir Maggi.

„Skemmtilegri tími en allt sem hann hefur gert erlendis"
Afturelding var með einn lánsmann seinni hluta tímabilsins. Jökull Andrésson kom á láni frá enska félaginu Reading. Jökull er samningsbundinn Reading út júní á næsta ári. Er möguleiki á því að fá hann aftur fyrir næsta tímabil?

„Það er ekki bara í okkar höndum, eða í Jökuls höndum. Við þurfum að sjá hvað Reading segir. Ég er mjög þakklátur Reading fyrir fagmannleg samskipti í sumar þegar við fengum Jökull til okkar. Ég veit að hann er búinn að vera gríðarlega ánægður hjá okkur. Ég held að þessir tveir mánuðir í Mosfellsbæ hafi verið skemmtilegri en allt sem hann hefur gert erlendis. Ég vona að hann sé til í að taka slaginn með okkur áfram og svo þurfum við bara að sjá til hvað sé hægt að gera. Við setjumst yfir það núna, ræðum við hann og Reading. Það er klár vilji hjá okkur að halda honum, að sjálfsögðu, stóð sig frábærlega í sumar, er geggjaður karakter og að sjálfsögðu Mosfellingur. Það þarf ekkert að fjölyrða um hvað hann gerði fyrir okkur í sumar."

Þarf að spýta í á öllum vígstöðvum
Maggi gerir sér grein fyrir því að það þarf að styrkja hópinn fyrir Bestu deildina.

„Hvað varðar styrkingar almennt þurfum við að sjá hvað við getum gert. Við höfum ekki sama fjárhagslega bakland í dag og lið í Bestu deildinni. Við þurfum að sjá hvað við getum gert í þeim efnum. Við erum heppnir með að við höfum alltaf verið að fá fleiri og fleiri með okkur í lið, bæði sjálfboðaliðar og styrktaraðilar. Við þurfum að fá ennþá meiri liðsstyrk þar á næsta ári til að nálgast liðin í Bestu deildinni hvað fjármagn og annað varðar. Við viljum auka ennþá betur við umgjörðina, höfum lyft fagmennskunni mikið og umgjörðin er frábær, en við viljum taka næsta skref þar líka. Við viljum meira og þurfum að spýta ennþá meira í á öllum vígstöðvum."

Reiknar með fyrirliðanum áfram
Einn af samningslausu leikmönnunum er fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson. Aron æfði með danska liðinu Næstved í vetur og hefur verið orðaður við uppeldisfélagið Val síðustu ár.

„Að sjálfsögðu vil ég halda Aroni. Ég reikna fastlega með því að hann spili áfram með okkur og leiði okkur inn á völlinn á næsta tímabili eins og hann hefur gert undanfarin ár."

„Ég vil hrósa honum fyrir að hafa haft trú á því sem við erum að gera. Hann er einn af fyrstu leikmönnunum sem kemur til Aftureldingar eftir að ég tek við þjálfuninni með Enes árið 2020. Hann hefur staðið með okkur í gegnum súrt og sætt og verið frábær fyrir okkur. Það hafa vissulega komið möguleikar fyrir hann að fara annað, en hann hefur alltaf haldið tryggð við okkur. Ég held að hann sjái að við erum að reyna gera hlutina vel, honum líður vel hjá okkur og passar vel í það sem við erum að gera."

„Það er eins með hann og alla þessa samningslausu leikmenn. Núna förum við bara í að klára þau mál. Við vildum bara klára tímabilið, erum búnir að vera í úrslitaleikjum síðan í lok júlí. Einbeitingin hefur gjörsamlega verið á því hjá öllum í kringum félagið að vinna þessa leiki sem við áttum eftir til að ná markmiði okkar. Það náðist um helgina. Núna förum við í að skoða þessi mál af fullum krafti."


Verður mjög hissa ef menn vilja fara annað
Eru önnur félög búin að setja sig í samband við ykkur um að fá að ræða við þessa stráka?

„Ekki svo ég viti, ég held það sé ekkert svoleiðis í gangi. Ég verð mjög hissa ef þessir leikmenn vilja fara eitthvert annað núna eftir að hafa tekið þátt í þessu sumri. Ég vona og trúi því að þeir vilji vera áfram með okkur og taka fyrsta tímabilið með Aftureldingu í efstu deild."

„Ég held það séu mjög spennandi tímar framundan í Mosfellsbæ, erum að fara inn í glænýtt verkefni. Ef við líkjum þessu við tölvuleik þá erum við búin að klára öll borðin í Lengjudeildinni, nú hendum við þeim leik og förum í nýjan þar sem við þurfum að klýfa í gegnum borðin í Bestu deildinni. Við þurfum að leggja okkur allra fram við að ná árangri þar."


Dreymt lengi um að koma liðinu upp
Maggi skrifaði undir tveggja ára samning við Aftureldingu síðasta haust svo það er ljóst að hann verður áfram þjálfari liðsins.

„Það er engin spurning, ég verð áfram og er mjög spenntur fyrir því að fara með Aftureldingu í Bestu deildina. Þetta hefur verið draumur lengi og við getum ekki beðið eftir því að taka slaginn næsta sumar. Vonandi taka sem flestir Mosfellingar slaginn með okkur, stuðningurinn á laugardaginn var gríðarlegur og maður er þakklátur fyrir það. Vonandi teygir það sig inn í næsta tímabil. Það verður hrikalega gaman að fá spreyta sig í Bestu deildinni næsta sumar. Við hlökkum til að takast á það við það," segir Maggi.

Nöfn samningslausra leikmanna Aftureldingar má nálgast í hlekknum hér neðst.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner