
Landsliðsmiðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði tvennu þegar Vålerenga vann 3-1 sigur gegn sænska félaginu Häcken í æfingaleik í dag.
Ingibjörg gerði annað mark Vålerenga í leiknum er hún skoraði eftir frákast í fyrri hálfleik.
Hún bætti svo við öðru marki sínu og þriðja marki Vålerenga um tíu mínútum síðar.
Häcken náði að minnka muninn en lokatölur í leiknum voru 3-1 líkt og áður segir. Diljá Ýr Zomers byrjaði á bekknum hjá Häcken í leiknum en kom inn á sem varamaður og spilaði 16 mínútur.
Bæði lið eru að hefja undirbúningstímabil fyrir komandi leiktíð. „Vonandi er þetta byrjun á einhverju góðu," sagði Ingibjörg eftir leik en hún er ekki vön því að skora mjög mikið af mörkum. Henni tókst þó að skila tveimur mörkum í dag sem er ansi vel gert hjá miðverði.
Athugasemdir