Fjölmiðlar á Englandi og Spáni greina frá því að Real Madrid hafi áhuga á tveimur leikmönnum Newcastle United og sé að fylgjast náið með þróun þeirra hjá félaginu.
Annar þeirra er brasilíski miðjumaðurinn Bruno Guimaraes sem hefur verið í lykilhlutverki frá komu sinni í janúar 2022, en hann kostaði félagið tæpar 40 milljónir punda og er ekki falur fyrir minna en 60 eða 70 milljónir í dag.
Guimaraes er 25 ára gamall landsliðsmaður Brasilíu sem hefur verið meðal allra bestu miðjumanna ensku úrvalsdeildarinnar frá komu sinni frá Lyon.
Hinn er sænski framherjinn Alexander Isak sem kostaði 63 milljónir punda í fyrrasumar, en hann hefur skorað 15 mörk í 35 leikjum með Newcastle.
Isak, sem kom úr röðum Real Sociedad á Spáni, er 24 ára gamall og er dýrasti leikmaður í sögu Newcastle.
Athugasemdir