City og Real með augu á Olise - Bentancur að framlengja við Tottenham - Saka fær launahækkun
   fim 02. október 2025 19:49
Elvar Geir Magnússon
„Þvílík kaup!“ - Sævar Atli kominn með fimm Evrópumörk
Sævar Atli að skora í leiknum í kvöld.
Sævar Atli að skora í leiknum í kvöld.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
„Sævar gerði það aftur. Þvílík kaup!“ segir í fyrirsögn Bergensavisen eftir að Sævar Atli Magnússon skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri Brann gegn Utrecht í Evrópudeildinni í kvöld.

Sævar skoraði í naumu 1-2 tapi gegn Lille í fyrstu umferð og er alls kominn með 10 mörk í 15 leikjum síðan hann gekk í raðir norska liðsins frá Lyngby í Danmörku.

Sævar hefur algjörlega slegið í gegn hjá Brann og skoraði laglegt mark á 41. mínútu í kvöld, fékk boltann í teignum og setti hann snyrtilega í hornið. Það var frábær stemning á vellinum enda fyrsti Evrópuleikurinn í borginni í átján ár.

Með forkeppninni hefur Sævar alls skorað fimm Evrópumörk með Brann, jafnmörg og Ármann Smári Björnsson skoraði á sínum tíma. Þeir eru saman í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn Brann í Evrópu frá upphafi.

Jonas Grönner, sérfræðingur Bergensavisen og fyrrum fyrirliði Brann, segir Sævar ein bestu kaup í sögu félagsins.

„Euro-Sævar! Vinnuhestur og markaskorari, er til betri tvenna? Svakalega kraftmikil innkoma," segir Grönner við Verdens Gang.

„Stórkostlegur sigur. Ég er virkilega stoltur af strákunum. Við höfum orðið gríðarlega sterkir andlega. Ég skynja rosalega mikið sjálfstraust í liðinu," sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Brann, eftir leikinn en hann er fyrsti íslenski þjálfarinn sem stýrir liði í Evrópudeildinni.

Eggert Aron Guðmundsson spilar einnig fyrir Brann og hann fékk færi til að tvöfalda forystu Brann í seinni hálfleiknum.
Athugasemdir
banner
banner