Manchester City er tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal eftir að hafa unnið magnaðan 5-4 sigur á Fulham á Craven Cottage í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Everton hafði á meðan betur gegn Bournemouth, 1-0, þökk sé marki Jack Grealish á lokakafla leiksins.
Erling Braut Haaland bætti met Alan Shearer á 17. mínútu leiksins er hann hamraði boltanum í netið eftir undirbúning Jeremy Doku.
Það var 100. deildarmark Haaland sem náði þeim áfanga í aðeins 111 leikjum, en Shearer átti metið sem hann setti í 124 leikjum. Magnað afrek hjá Haaland sem lagði síðan upp annað markið fyrir Tijjani Reijnders á 37. mínútu.
Phil Foden gerði þriðja markið undir lok fyrri hálfleiks eftir að Bernd Leno kýldi hornspyrnu út á Foden sem kom Man City í þægilega forystu.
Emile Smith Rowe minnkaði muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks, en Man City hélt áfram að raða inn í þeim síðari.
Foden gerði annað mark sitt. Haaland fann Englendinginn sem kláraði snyrtilega í nærhornið.
Nokkrum mínútum síðar kom fimmta markið. Joachim Andersen gaf boltann klaufalega frá sér í vörninni og á Jeremy Doku sem setti boltann í Sander Berge og í netið. Markið skráð sem sjálfsmark á Berge enda breytti boltinn duglega um stefnu.
Þetta hefði drepið leik flestra liða en ekki Fulham. Alex Iwobi minnkaði muninn á 57. mínútu og þá gerði Samuel Chukwueze tvö mörk á sex mínútum til að færa meiri spennu í leikinn.
Stórkostlegt svar frá Fulham en ekki nóg til þess að kreista stig úr leiknum og urðu lokatölur 5-4, Man City í vil sem er nú með 28 stig í öðru sæti en Fulham í 15. sæti með 17 stig.
Grealish hetjan í Bournemouth
Everton marði 1-0 sigur á Bournemouth á Vitality-leikvanginum í Bournemouth.
Það þurfti töfra fyrir Everton til að sækja öll stigin í leiknum og það var það sem Jack Grealish bauð upp á þegar um tólf mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Hann var með boltann fyrir utan teiginn, rann til í skotinu og boltinn þaðan af Bafode Diakitie og í netið.
Fjórða tap Bournemouth í síðustu fimm leikjum, en Everton á góðri siglingu undir David Moyes.
Everton er í 9. sæti með 21 stig en Bournemouth komið niður í 14. sæti með 19 stig.
Fulham 4 - 5 Manchester City
0-1 Erling Haaland ('17 )
0-2 Tijjani Reijnders ('37 )
0-3 Phil Foden ('44 )
1-3 Emile Smith-Rowe ('45 )
1-4 Phil Foden ('48 )
1-5 Sander Berge ('54 , sjálfsmark)
2-5 Alex Iwobi ('57 )
3-5 Samuel Chukwueze ('72 )
4-5 Samuel Chukwueze ('78 )
Bournemouth 0 - 1 Everton
0-1 Jack Grealish ('78 )
Athugasemdir



