Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 03. desember 2019 22:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Þægilegur sigur Man City á Turf Moor
Mynd: Getty Images
Burnley 1 - 4 Manchester City
0-1 Gabriel Jesus ('24 )
0-2 Gabriel Jesus ('50 )
0-3 Rodri Hernandez ('68 )
0-4 Riyad Mahrez ('87 )
1-4 Robbie Brady ('89 )

Manchester City komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni með þægilegum sigri gegn Burnley á útivelli.

Sergio Aguero er meiddur og byrjaði því Gabriel Jesus sem fremsti maður City. Hann nýtti tækifæri sitt vel í kvöld og skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu. Markið var afar laglegt og má sjá það hérna.

City var töluvert sterkari aðilinn í leiknum og snemma í seinni hálfleik kom annað markið. Gabriel Jesus skoraði þá aftur, í þetta skiptið eftir sendingu Bernardo Silva. Stuttu síðar var Jesus nálægt því að fullkomna þrennuna, en skot hans fór fram hjá markinu.

Spænski miðjumaðurinn Rodri kom inn í byrjunarliðið fyrir leikinn í kvöld og hann skoraði þriðja mark City á 68. mínútu með þrumuskoti.

City lék á als oddi í kvöld og skoraði varamaðurinn Riyhad Mahrez, sem var í sæti númer tíu á Ballon d'Or verðlaunahátíðinni í gær, á 87. mínútu með skoti fyrir utan teig. Hann tók skæri og átti síðan gott skot sem Pope náði ekki að verja.

Robbie Brady minnkaði muninn á 89. mínútu og lagaði aðeins stöðuna fyrir Burnley.

Lokatölur á Turf Moor 4-1 fyrir Englandsmeistara Man City sem eru núna átta stigum frá Liverpool. City fer upp fyrir Leicester í annað sæti deildarinnar. Burnley er í 11. sæti með 18 stig og hefur núna tapað tveimur leikjum í röð á heimavelli.

Eins og áður segir þá er City aftur komið á sigurbraut, en liðið gerði jafntefli við Newcastle um síðustu helgi.

Fimmtánda umferð ensku úrvalsdeildarinnar heldur áfram á morgun. Þá mun meðal annars topplið Liverpool mæta Everton í nágrannaslag.

Önnur úrslit:
England: Magnaður sigur Palace - Einum færri í 70 mínútur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner