Trafford vill fara frá City - Gallagher og Brown til Man Utd? - Arsenal fær tvíbura - Guendouzi aftur til Englands - Mateta á förum?
banner
   mið 03. desember 2025 08:25
Elvar Geir Magnússon
Geir Þorsteins segir KSÍ hafa blásið út og dökk ský myndast
Geir Þorsteinsson er framkvæmdastjóri KR.
Geir Þorsteinsson er framkvæmdastjóri KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir var formaður KSÍ.
Geir var formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KR og fyrrum formaður KSÍ, stakk niður penna og skrifaði stuttan pistil á Facebook síðu sinni þar sem hann segir dökk ský hafa myndast yfir íslenska fótboltanum.

Hann segir forystu KSÍ leggja fram tillögur um miklar álögur á aðildarfélög vegna fjárhagsstöðu.

„KSÍ var stofnað til að halda Íslandsmót, en nú er það að áliti sumra, orðið baggi á knattspyrnuhreyfingunni," segir Geir meðal annars í pistli sínum.

„KSÍ hefur blásið út, bæði hvað varðar landslið og skrifstofuhald. Þar eiga menn að byrja, sníða sé stakk eftir vexti og vitanlega verða tekjur minni þegar leikið er í C deild en ekki A deild. "



Pistill Geirs í heild sinni:

Dökk ský yfir knattspyrnuhreyfingunni
Á formanna- og framkvæmdastjórnarfundi KSÍ sl. laugardag var dregin upp dökk mynd af fjármálum KSÍ og lagðar fram tillögur forystu KSÍ um tugi milljóna eða hundruð milljóna króna álögur á aðildarfélög KSÍ. Alla vega eiga aðildarfélögin að reiða af hendi hundruð milljóna á næstu árum til þess að mótahald gangi vel
fyrir sig og dómarar mæti til leiks.

Vægast sagt slæm tíðindi að flaggskip íslenskrar knattspyrnu sem hlýtur árlega gríðarlega styrki bæði frá UEFA og FIFA sé komið í þennan vanda. Það sem meira er, þessir styrkir UEFA og FIFA munu hækka verulega á komandi árum.

Reyndar er ein ástæðan sögð fyrirmæli UEFA og FIFA um „bókhaldslega" nýtingu (færslu) á styrkjum þessara samtaka og um leið hnýtt í fyrri stjórnendur sambandsins fyrir að hafa ekki rukkað aðildarfélögin af sanngirni fyrir þjónustu knattspyrnusambandsins og dómara í leikjum á fyrri árum.

KSÍ hefur blásið út, bæði hvað varðar landslið og skrifstofuhald. Þar eiga menn að byrja, sníða sé stakk eftir vexti og vitanlega verða tekjur minni þegar leikið er í C deild en ekki A deild.

Í stað þess að horfast í augu við vandann og skera hressilega niður á að halda áfram að mestu á sömu braut útgjalda og nú eiga aðildarfélögin að taka á sig „réttlátan” hluta kostnaðar við rekstur
KSÍ innanlands. KSÍ var stofnað til að halda Íslandsmót, en nú er það að áliti sumra, orðið baggi á knattspyrnuhreyfingunni og kominn tími til að aðildarfélögin greiði sanngjarnt „afnotagjald” til
knattspyrnusambandsins.

Athugasemdir
banner