Hrannar Snær Magnússon, leikmaður Aftureldingar, er þessa dagana á reynslu hjá Kalmar í Svíþjóð.
Hrannar, sem er 23 ára gamall, er staddur í Svíþjóð þar sem hann æfir með aðalliði Kalmar FF.
Kalmar vann sér sæti í Allsvenskuna á nýafstöðnu tímabilinu og væri þetta því stórkostlegt tækifæri fyrir Hrannar sem var einn af ljósu punktunum í Aftureldingu sem féll niður í Lengjudeildina.
Hann skoraði níu mörk og gaf tvær stoðsendingar í Bestu deildinni, en mikill áhugi er á honum á Norðurlöndunum.
Í útvarpsþætti Fótbolta.net var greint frá því að Hrannar væri með samningstilboð frá norska úrvalsdeildarfélaginu Kristiansund og hann hefði kannað aðstæður hjá skoska félaginu Livingston.
Kristján Óli Sigurðsson sagði þá frá ákvæði í samningi Hrannars á X.
Ef Afturelding hefði haldið sér uppi hefði Hrannar getað farið frítt erlendis en við fallið virkjaðist ákvæði í samningnum sem gerir honum kleypt að fara frítt í önnur íslensk félög - ef hann vill.
Athugasemdir


