Aitana Bonmatí, besta fótbolta kona heims, verður frá næstu fimm mánuði eftir að hafa fótbrotnað á æfingu með spænska landsliðinu á dögunum.
Bonmatí hefur unnið Ballon d'Or verðlaunin síðustu þrjú ár og varð þar með fyrsta konan til að hreppa verðlaunin í þrígang.
Hún fótbrotnaði eftir að hafa lent illa á æfingu með spænska landsliðinu á dögunum. Í kjölfarið gekkst hún undir hnífinn, en það hefur fengist staðfest að hún verði frá í fimm mánuði.
Bonmatí er mikilvægasti leikmaður Barcelona sem er sigursælasta lið Evrópu síðustu árin. Á síðustu leiktíð var hún valin besti leikmaður Meistaradeildarinnar er Barcelona komst alla leið í úrslit og þá vann hún spænsku deildina með liðinu.
Spænska landsliðið mun mæta Íslandi í undankeppni HM í mars á næsta ári. Leikurinn er spilaður á Spáni en það er heldur hæpið að Bonmatí nái þeim leik.
Athugasemdir


