Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 04. júní 2020 10:30
Magnús Már Einarsson
Guðni Eiríks: Fáum vonandi fleiri óvænt úrslit
Guðni Eiríksson
Guðni Eiríksson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Eiríksson, þjálfari nýliða FH, segir það ekki koma á óvart að Fótbolti.net spái liðinu 8. sæti í Pepsi Max-deild kvenna í sumar.

„Nei ég get ekki sagt það. Það er nú yfirleitt alltaf þannig að nýliðum er spáð erfiðu gengi og það er greinilega ekkert nýtt undir sólinni núna," sagði Guðni við Fótbolta.net.

„Við Árni (Freyr Guðnason, aðstoðarþjálfari) erum með liðið í ákveðinni vegferð og viljum því sjá eðlilegan tröppugang frá síðasta sumri hvað spilamennsku varðar. Það er hungur í leikmönnum að sanna sig í hverjum leik og við vonum að það skili sér í stigasöfnun. Við viljum að liðið festi sig í sessi í efstu deild."

FH hefur styrkt sig í vetur og meðal annars fengið Sigríði Láru Garðarsdóttur og Andreu Mist Pálsdóttur í sínar raðir en þær eiga báðar landsleiki að baki. Guðni er ánægður með liðsstyrkinn.

„Já ég er virkilega ánægður með hann. Við vorum með góðan kjarna fyrir en höfum bætt við okkur gæðaleikmönnum sem hafa hjálpað liðinu mikið að komast á næsta stig. Þessir leikmenn búa yfir sigurhefð sem mun nýtast okkur þegar fram í sækir. "

Gætu FH-ingar fengið frekari liðsstyrk fyrir 1. umferðina þann 13. júní? „Það verður bara að koma í ljós. Við Árni erum alltaf með eitthvað í skoðun en svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort eitthvað komi út úr því," sagði Guðni.

Í fyrra fóru bæði Breiðablik og Valur taplaus í gegnum mótið en Guðni býst við meiri keppni í ár. „Fyrirfram má búast við að Breiðablik, Valur og Selfoss raði sér í efstu þrjú sætin og svo er alltaf eitthvað lið sem kemur á óvart. Ég tel að ekkert lið fari taplaust í gegnum þetta tímabil og vonandi fáum við fleiri óvænt úrslit. Að sama skapi má búast við að baráttan á hinum endanum verði hörð og jafnari en í fyrra," sagði Guðni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner