Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Tottenham muni ganga frá samkomulagi við ástralska þjálfarann Ange Postecoglou á næstu 48 klukkustundum.
Postecoglou hefur verið að gera flotta hluti við stjórnvölinn hjá Celtic í Skotlandi en hann hóf ferilinn í ástralska boltanum og stýrði landsliðinu frá 2013 til 2017. Áður en hann var ráðinn til Celtic starfaði Postecoglou sem þjálfari Yokohama F. Marinos í Japan, við frábæran orðstír.
Núna er Postecoglou við það að taka við stjórnartaumunum hjá Tottenham, sem er í mikilli krísu eftir að hafa misst af Evrópusæti í fyrsta sinn síðan 2009.
Luis Enrique, fyrrum þjálfari Barcelona og landsliðsþjálfari Spánar, var einnig á lista yfir mögulega arftaka Antonio Conte en Postecoglou þykir betri kostur í augum stjórnarinnar.
Tottenham og Postecoglou eru svo gott sem búin að komast að samkomulagi og verður gengið frá smáatriðunum á næsta fundi.