Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 21:56
Ívan Guðjón Baldursson
England: West Ham náði í stig á Old Trafford
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Manchester Utd 1 - 1 West Ham
1-0 Diogo Dalot ('58 )
1-1 Soungoutou Magassa ('84 )

Manchester United tók á móti West Ham United í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni og var staðan markalaus eftir fyrri hálfleik.

Heimamenn fengu nokkur færi sem tókst ekki að nýta á meðan gestirnir frá London sýndu hættulegar rispur með skyndisóknum.

Man Utd var sterkara liðið í fyrri hálfleik og byrjaði þann seinni af miklum krafti. Rauðu djöflarnir verðskulduðu að taka forystuna á 58. mínútu þegar marktilraun Casemiro breytti um stefnu af varnarmanni og endaði hjá Diogo Dalot innan vítateigs. Portúgalinn var fljótur að hugsa og skoraði úr góðu færi en hann var heppinn að vera réttstæður eftir að Aaron Wan-Bissaka missti einbeitinguna og bakkaði alltof lágt niður.

Heimamenn leituðu að öðru marki en tókst ekki að skora. Þess í stað svöruðu Hamrarnir með jöfnunarmarki eftir hornspyrnu. Noussair Mazraoui bjargaði skallatilraun Jarrord Bowen á marklínu en boltinn barst til Soungoutou Magassa sem var einn og óvaldaður og skoraði með föstu skoti af stuttu færi.

West Ham var næstum búið að taka forystuna eftir laglegt hlaup frá Jarrod Bowen en það vantaði liðsfélaga til að taka á móti sendingunni hans. Rauðu djöflarnir reyndu að sækja en tókst ekki að ryðja sér leið í gegnum vörn Hamranna, svo lokatölur urðu 1-1.

Man Utd deilir 7.-9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með Brighton og Liverpool. Liðin eiga 22 stig eftir 14 umferðir, tíu stigum meira heldur en West Ham sem situr í fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner