Hlusta á tilboð í Mateta næsta sumar - Mainoo efstur á óskalista Napoli - Ungur Þjóðverji á blaði hjá Liverpool og Man Utd
   fim 04. desember 2025 12:48
Elvar Geir Magnússon
Gísli Gottskálk meiddist illa og verður aftur lengi frá
Gísli Gottskálk Þórðarson hefur verið ótrúlega óheppinn með meiðsli.
Gísli Gottskálk Þórðarson hefur verið ótrúlega óheppinn með meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Landsliðsmiðjumaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson fór af velli á börum þegar Lech Poznan lék útileik gegn Piast Gliwice í pólsku bikarkeppninni.

Gísli hélt um andlit sitt þegar hann var borinn af velli en samkvæmt pólskum fjölmiðlum voru vallaraðstæður slæmar og mold á vellinum. Hann hafi rennt sér til að komast fyrir boltann en fest sig í grasinu og snúist upp á hné hans.

Gísli hafði byrjað á bekknum en komið inn sem varamaður á 23. mínútu vegna meiðsla hjá liðsfélaga hans. Lech Poznan vann leikinn 2-0 og komst áfram í 8-liða úrslit.

Óttast er að Gísli verði lengi frá vegna meiðslanna og jafnvel talið um að liðbönd í hné hafi slitnað. Hann hefur verið gríðarlega óheppinn með meiðsli síðan hann gekk í raðir Lech Poznan. Hann fór í aðgerð á öxl og sleit svo liðbönd í ökkla.

Gísli er uppalinn Bliki, fór frá félaginu á 16. aldursári og gekk í raðir Bologna. Sumarið 2022 sneri hann aftur til Íslands og samdi þá við Víking. Hann sprakk út á síðasta ári og var seldur til pólska stórliðsins síðasta vetur.

Hann lék sinn fyrsta A-landsleik í október og lék svo gegn Aserbaísjan í síðasta glugga. Þessi 21 árs leikmaður hefur spilað 18 leiki (9 í deildinni) og skorað eitt mark fyrir Lech Poznan á þessu tímabili.


Athugasemdir
banner
banner