Sú staða gæti komið upp að nýliðar Keflavíkur í Bestu deild karla þyrftu að leika fyrstu heimaleiki sína á komandi tímabili á höfuðborgarsvæðinu vegna aðstöðumála. Mjög ólíklegt má teljast að grasvöllur Keflavíkur á HS Orkuvellinum verði klár í byrjun apríl en undanfarin ár hefur Keflavík hafið Íslandsmótið á gervigrasvelli við Nettóhöllina. Völlurinn þar má teljast góður en aðstaða í kringum völlinn hefur ekki þótt til útflutnings.
Kröfur til fótboltamannvirkja hafa aukist mikið á undanförnum árum og hefur leyfiskerfi KSÍ verið hert mikið þegar kemur að aðstöðumálum. Í reglugerð KSÍ kemur fram að til að hljóta leyfi til notkunar í Bestu deild karla þurfi leikvangur að vera að minnsta kosti í B flokki samkvæmt flokkun KSÍ.
Tiltekin eru ýmis atriði tengd aðstöðu liða, dómara, rétthafa sjónvarpsútsendinga, fjölmiðla og áhorfenda sem uppfylla þarf til að hljóta þá flokkun. HS Orku völlurinn aðalvöllur fellur þar undir en hann er í B flokki. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um völlinn við Nettóhöllina sem er aðeins í D flokki enda aðstaða fyrir alla ofangreinda langt í frá ásættanleg miðað við kröfur KSÍ.
Undanþágur hafa fengist á undanförnum árum og fékk Keflavík t.a.m að hefja leik síðast þegar liðið lék í Bestu deildinni 2023 við Nettóhöllina auk þess sem lið ÍA hefur í nokkur skipti fengið að leika heimaleiki sína í Akraneshöllinni líkt og í lokaumferð mótsins nú í ár.
Fótbolti.net hefur haft veður af því undanfarið að tekið verði fyrir þessar undanþágur og að félög í Bestu deildinni verði að hafa varavöll sem uppfylli kröfur KSÍ um leikvang í Bestu deildinni jafnvel þó aðalvöllur liðsins sé óleikhæfur. Ef þær sögur eru sannar gæti það því farið svo að lið Keflavíkur gæti neyðst til að leita á náðir félaga á höfuðborgarsvæðinu um aðstöðu til að leika fyrstu heimaleiki sína í Bestu deildinni árið 2026.
Athugasemdir


